3. mars 2014

Ráðstefna, strandpartý og ugluvettlingar

Við vorum með strandpartý á Samfundet (stúdentafélag) um helgina. Þetta er árlegur viðburður í nefndinni/hópnum sem ég er í. Við fyllum gólfið í aðstöðunni okkar af sandi, setjum ofnana í botn og leigjum krapvél, þannig að það er sannkallaður sumarfílingur. Karl-Kristian átti afmæli á föstudeginum, svo hann fékk heljarinar afmælisveislu. Vinur okkar kom líka í heimsókn frá Bergen til að taka þátt í strandpartýinu. Við Karl-Kristian erum orðin svo gömul að við nenntum ekki að taka þátt á laugardeginum líka, en við komum þeim mun sterkari tilbaka á sunnudeginum til að bera allan sandinn aftur út og þrífa. 

Á laugardaginn kláraði ég ugluvettlingana sem ég er búin að vera með á prjónunum. Ég keypti uppskriftina hér. Upphaflega áttu þeir að vera á mig, en þeir urðu stærri en ég ætlaði mér, þannig að Karl-Kristian fékk þá.



Í öllum prjónabókahamaganginum gleymdi ég að segja frá því að á mánudaginn var ég á ráðstefnu. Fjögur stór hugbúnaðarlausnafyrirtæki sendu nokkra starfsmenn til Þrándheims til að halda stutta fyrirlestra fyrir okkur um nýjustu tækni og fyrirbæri innan bransans. Eitt þessa fjögurra fyrirtækja var fyrirtækið sem ég er að fara að vinna hjá frá og með ágúst, Steria. Um kvöldið fórum við - starfsmenn fyrirtækjanna og nemendur - svo á vetingastað þar sem boðið var upp á tapas og bjór. Það vildi svo skemmtilega til að sessunautur minn hafði unnið á Samfundet 1987 og 1989, við að gera upp húsnæði félagsins, en ég er einmitt búin að vinna við það síðan 2009.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli