26. janúar 2015

Prjónað í sumarfríinu

Í sumar greip ég oft í prjónana og hér koma myndir af afrakstrinum.

Svona leit skrifborðið mitt út þegar ég var á Íslandi. Prjónar, garn, prjónabækur og prjónastykki út um allt.
Ég prjónaði þessa sokka og ætlaði að gefa henni Emmu Þórunni, nýjustu vinkonu minni, en þegar ég hitti hana, sá ég að þeir voru allt of litlir.
Uppskrift úr Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði Kambgarn í stað léttlopa til að fá ungbarnastærð.
Ég prjónaði þessa lopavettlinga til að gefa mastersverkefnisleiðbeinandanum mínum. Uppskriftin er úr Vettlingum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði þrefaldan plötulopa í stað tvöfalds til að fá karlmannsstærð.

Lopavettlingar úr þreföldum plötulopa. 
Þar sem að ég var að fara að byrja í skrifstofuvinnu, varð ég að eiga grifflur til að hlýja mínum vélritandi fingrum í vinnunni. Ég fann þessa fínu uglugriffluuppskrift á netinu og notaði Léttlopa í verkið.

Uglugrifflur.
Ég gerði aðra tilraun til að gera sokka handa Emmu Þórunni. Ég var búin að prjóna fyrri sokkinn og byrjaði á þeim seinni þegar við vorum í sumarbústað. Mér fannst hann vera svolítið stór hjá mér en ég var ekki með fyrri sokkinn með mér til að bera þá saman. Þegar ég kom heim og bar þá saman reyndist ég hafa farið smá línuvillt í uppskriftinni og prjónað seinni okkinn á 3 ára í stað 0,5 ára. Þá gafst ég upp og Emma Þórunn hefur enga sokka fengið.

Stakur sokkur. Uppskriftin að þessum er líka í Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur.

24. janúar 2015

Smá tafir vegna óviðráðanlegra aðstæðna

Eins og allir aðdáendur mínir hafa tekið eftir er búið að vera svolítið langt á milli færsla upp á síðkastið. Þannig vill til að mér hlotnaðist sá heiður að ganga með barn okkar Karls-Kristians og það tekur heldur betur á. Hér er mynd af fóstrinu sem breytist í barn um miðjan júní.
Fóstur

Ég hef aldrei skilið það hvað sumar vinkonur mínar hafa hlakkað til þess að vera óléttar (ekki að eignast barn, heldur sjálfrar meðgöngunnar) og ég skil það enn síður núna. Ég er eiginlega frekar heppin af því að þreyta og svimi er það eina sem hefur hrjáð mig en mér fannst það alveg nóg. Fyrstu þrjá mánuðina gerði ég nánast ekkert annað en að fara í vinnuna og kom svo heim og fór beint upp í rúm. Ég fór nánast að grenja þegar rúllustiginn á lestarstöðinni bilaði vegna vatnsskemmda og ég þurfti svona 10 mín til að ná andanum aftur eftir að hafa gengið upp tröppurnar (á hverjum degi á leiðinni í vinnuna). Hér koma nokkrar myndir sem sýna hversu yndislegt það er að bera barn undir belti (ég er samt ekki búin að ganga með belti eftir að barnið kom undir).

Þarna eyddi ég ófáum tímunum.
Ég að gera ekkert

Tvær myndir af mér þar sem ég er sennilega nýkomin heim úr vinnunni og tilbúin í hvað sem er.

Sem betur fer lagaðist þetta eftir fyrsta hluta meðgöngunnar. Allt í einu gat ég gengið á mínum venjulega gönguhraða og fyrstu viðbrögð mín við því að sjá tröppur hættu að vera bugun. Ég fann samt greinilega að líkaminn var ekki búin að fá neina hreyfingu í næstum því þrjá mánuði og er smátt og smátt að vinna upp betra þol. Ég keypti mér púlsmæli sem telur líka skref til að hvetja mig til þess að hreyfa mig og það svínvirkar. Ég er búin að labba í vinnuna flesta daga vikunnar og passa að sitja ekki of lengi í einu (grindin sko). Púlsmælirinn setur mér markmið fyrir því hversu mikið ég á að hreyfa mig á hverjum degi og segir mér í prósentum hvað ég er búin með mikið. Karl-Kristian horfði á mig furðulostinn eitt kvöldið þar sem ég stóð á stofugólfinu og steig trylltan dans án tónlistar rétt fyrir háttatíma ...ég átti 8% eftir.

Ég er ennþá ekki farin að finna nein spörk. Sennilega af því að það er auðveldast að finna þau þegar maður er lagstur upp í rúm (mig rámar í það að hafa lesið það en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það) en ég gleymi alltaf að reyna að finna þau þá (og bara alltaf). Kjáninn ég fer bara að sofa. Einu sinni fannst mér ég finna eitthvað en það gæti alveg eins hafa verið loft í leiðangri í gegn um görnina á mér.

Ég er með nokkrar hálftilbúnar færslur frá því í sumar og haust sem ég ætla að klára og birta á næstu dögum. Svo er ég að hugsa að afgreiða restina bara með smá annál fyrir 2014, þannig að þið getið fylgst spennt með.