25. febrúar 2014

Prjónabækur

Í byrjun þessa mánaðar pantaði ég mér tvær prjónabækur með vettlingauppskrifum og ég er búin að bíða eftir þeim eins og leikskólakrakki eftir afmælisveislu. Í dag komu þær loksins og ég nánast hljóp út á pósthús. Svona líta þær út.

Latvian Mittens eftir Lizbeth Upitis og Folk Mittens eftir Marcia Lewandowski

Þessi til hægri er með uppskriftir að hefbundnum lettneskum vettlingum. Þetta er fyrst og fremst munsturbók og maður þarf í flestum tilvikum að finna sjálfur út hvaða garn og prjóna maður notar og hversu margar endurtekningar maður hefur af munstrinu. Það eru sem betur fer margir búnir að prjóna vettlinga úr henni og setja á ravelry.com þannig að það er hægt að nota þá sem viðmið. Mér fannst svolítið athuganarvert að í einu lettneska munstrinu var hakakross.

Þessi til vinstri inniheldur uppskriftir að hefbundnum vettlingum frá öllum heimshornum m.a. tvær lopavettlingauppskriftir. Það er auðveldara að fara eftir þessari bók, af því að í henni eru heilar uppskriftir með þumli, garnuppástungum o.s.frv. Báðar bækurnar eru ótrúlega flottar og mig langar að prjóna fullt upp úr þeim. Ég hlakka til að sýna ykkur myndir af afrakstrinum (þegar þar að kemur).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli