29. apríl 2014

Páskar

Ég ákvað að skella í eina páskamyndafærslu. Ég og Karl-Kristian vorum að mestu leyti uppi í skóla en við tókum okkur frí á laugardeginum. Karl-Kristian fór svo heim til mömmu sinnar á páskadag.

Akrýlgarn og súkkulaðiegg.

Mamma og pabbi voru svo góð að senda okkur páskaegg og garn í húfu.

Það leyndist ýmislegt góðgæti inni í páskaeggjunum.

Úr því að Karl-Kristian var að fara snemma á páskadag tókum við forskot á sæluna og opnuðum páskaeggin á skírdag. Ég sá samt pínu eftir því á sunnudeginum þegar ég átti næstum því ekkert eftir.

Það sem þetta bleika strik hefur skemmt mér. 

Ég ákvað að stríða Karli-Kristiani aðeins þegar við vorum að læra og teiknaði strik á kinnina á honum með bleikum yfirstrikunarpenna. Daginn eftir spurði ég svo hvort hann ætlaði ekkert að þvo það af sér og hann svarar "Hvaða strik?". Ég benti honum á það í speglinum og þá kom í ljós að hinn litblindi Karl-Kristian sá strikið hreinlega ekki. Ég mæli hiklaust með því að fá sér litblindan kærasta. Það er ógeðslega fyndið.

Páskapizza

Aðfangadag páska (jebb, í Noregi er laugardagurinn kallaður það) gerðum við þessa ljúffengu páskapizzu með grófum botni, pulsum, fetaosti, og ýmsu öðru góðgæti.


Vettlingar og húfa með áttablaðarósum. Vettlingarnir eru úr kambgarni en húfan er úr akrýlgarninu sem mamma sendi mér.

Ég kláraði áttablaðarósarvettlingana úr Vettlingabókinni eftir mömmu og hófst handa við að gera húfu með munstrinu sem ég minntist á hér. Ég er mjög ánægð með hana en ég á bara eftir að búa til dúsk áður en hún er tilbúin. Ég mæli með þessu akrýlgarni sem heitir Julia (Steinbach Wolle) og fæst í Ömmu mús. Það er ekki glansandi og gervilegt eins og akrýlgarn á það til að vera og það er tilvalið fyrir fólk eins og mig sem klæjar mikið undan ull.

Í gær kom Karl-Kristian svo heim eftir að hafa skroppið með félögum sínum í helgarferð til Manchester. Mikið óskaplega var gott að fá hann heim! Við fórum út að borða til að fagna því að í gær var eitt ár frá því við byrjuðum saman.

15. apríl 2014

Triple date

Um helgina fórum við Karl-Kristian á triple date með Ýr, Magnúsi, Linn og Frank. Við skelltum okkur á Graffi og borðuðum ljómandi góðan mat.

Magnús var slökkvuliðsmaður þegar hann gegndi herskyldu og valdi þess 
vegna strax sætið næst brunaslöngunni. Ýr var kát og hress að vanda.

Linn og Frank voru ekkert sérstaklega félagslynd.

Karl-Kristian og ég. Í horninu má einnig sjá sinnep og tómatsósu.

Eftir kvöldmatinn skelltum við okkur svo út á lífið og vorum í bænum langt framm á nótt. Ég held að klukkan hafi verið farin að ganga eitt þegar við fórum heim. 

10. apríl 2014

Hættulegur bolli

Nú er orðið langt síðan ég sýndi ykkur kaffibolla úr safni mínu, enda fer ég að verða búin að sýna ykkur alla. Hér kemur hauskúpubollinn. Ég fékk hann í 20 ára afmælisgjöf frá skólasystrum mínum. Þrændur eiga sér einkenniskokteil, karsk, sem samanstendur af kaffi og landa. Svo virðist sem mörgum Þrændum líði beinlínis illa ef ekki er til a.m.k. smá heimabrugg (landi) heima hjá þeim. Af hverju er ég allt í einu að segja ykkur frá þessu? Jú, af því að með þessum bolla fékk ég líka neskaffi og vodka (þessar skólasystur mínar eru ekki frá Þrændurlögum og þekktu þess vegna engann sem bruggaði landa) og ef þið smakkið einhvern tímann karsk, þá skiljið þið hversu viðeigandi hauskúpubollinn er.

Ég þarf engan vakthund. Ég set bara bollann minn út í gluggakistu.

7. apríl 2014

Sunnudagsbakstur

Um daginn fann ég uppskrift að rúnstykkjum sem mér fannst rosalega girnileg. Ég tók mig loks til í gær og prófaði uppskriftina. Uppskriftin er hér (á norsku*) og er með kotasælu og haframjöli. Ég held að ég hafi sjaldan borðað eins góðan morgunmat. Rúnstykkin voru ótrúlega góð og safarík. Við áttum líka brie og parmaskinku sem skemmdi sko ekki fyrir.

Svona leit deigið út.

Nammi namm. Osturinn bráðnaði á rúnstykkinu.


Ég lét ekki þar við kyrrt liggja. Á meðan rúnstykkin voru að hefa sig, skellti ég í eitt bananabrauð sem við fengum okkur í eftirrétt. Ég var einmitt að enda við að fá mér sneið af því núna ásamt rjúkandi heitu kaffi úr drottningarbollanum mínum. Mánudagar geta líka verið góðir.

*Ef þig langar að prófa hana getur þú látið mig vita ef það er eitthvað sem þú skilur ekki.

--------------------------------------------------------------------------------
Uppfært!

Vegna fjölda fyrirspurna kemur hér smá þýðing á innihaldinu:

2 dl gróft haframjöl (eins og þetta)
250 g kotasæla
50 g ger
1 tsk salt
3 dl fínt haframjöl (eins og þetta)
4 dl hveiti
7 dl heilhveiti, fínt eða blanda af fínu og grófu
5 dl vatn

Ég tók ekki eftir því að það væru tvö mismunandi haframjöl og notaði bara gróft. Ég hugsa að það hafi ekki svo mikið að segja.

2. apríl 2014

Araneyjuvettlingar

Ég kláraði eina vettlinga um helgina og var að ljúka við að þvo þá og pressa. Það var rosalega gaman að prjóna þetta írska munstur, frá Araneyju, sem ég fann í bókinni Folk Mittens eftir Marciu Lewandowski. Munstrið sést vel á myndinni hér fyrir neðan til vinstri, en liturinn er meira eins og á myndinni til hægri.  Mér finnst mjög fallegt að hafa svona kaðlamunstur í stroffinu.


                

Núna er ég byrjuð á vettlingum með áttablaðarós úr Vettlingabókinni eftir snillinginn hana mömmu.