31. júlí 2014

Útskrift

Bloggið er búið að vera í smá sumarfríi. Ég ætla smám saman að skrifa færslur um allt (ok, kannski ekki allt) sem ég er búin að vera að bralla í sumar. Núna er bara vika þangað til ég fer aftur til Noregs og á mánudaginn eftir rúmlega tvær vikur byrja ég svo í nýju vinnunni. Ég hlakka rosalega mikið til og ætla að reyna að leyfa ykkur að fylgjast með hér á blogginu.

Ég átti alltaf eftir að segja frá útskriftinni. Hún fór fram 23. maí áður en við áttum að skila ritgerðunum. Þetta er sennilega gert af því að það eru svo margir sem flytja frá Þrándheimi eftir námið og fáir hefðu mætt í útskriftina ef bíða ætti eftir því að allir væru búnir að skila.

Það var fyrst haldin útskriftarathöfn fyrir nokkrar greinar saman. Svo voru nokkrir úr bekknum búnir að skipuleggja sérathöfn fyrir tölvunarfræðina ásamt þriggja rétta máltíð með skemmtiatriðum um kvöldið. Mamma og pabbi komu í heimsókn til að fagna þessu með mér (fyrir fram) og Karl-Kristian var líka með þrátt fyrir að vera á lokasprettinum í ritgerðaskrifum sjálfur.

Hér erum við á leiðinni á athöfnina.

Í útskriftargjöf frá mömmu og pabba fékk ég íslenskan þjóðbúning (20. aldar upphlut) sem mamma átti. Hann var sniðinn á og notaður af móðurömmu hennar sem gaf mömmu hann svo. Mamma saumaði nýtt pils (hitt var orðið ónýtt) og svuntu. Hún prjónaði líka nýja skotthúfu handa mér vegna þess að sú sem langaamma átti var með einhvers konar pulsu inni í sem kom mjög illa út í sléttu hári. 

Í Noregi fá mjög margar stelpur þjóðbúning fyrir ferminguna sína og þeim er oft klæðst við hátíðarhöld og þá sérstaklega á þjóðhátíðardaginn. Strákarnir fá sjaldnar búning (sennilega vegna þess að margir eru ekki hættir að vaxa) en sumir fá sér svo seinna. Það eru til margar útgáfur af þjóðbúningum sem bundnir eru mismunandi bæjum/landshlutum. Búningarnir sem stelpurnar eru í hér fyrir neðan eru frá Bergen, Nordland og Gudbrandsdal.

Hér er tölvunarfræðiútskriftarhópurinn. Stelpurnar eru allar í þjóðbúningum og líka strákurinn þremur lengra til hægri en ég, en hann sést því miður illa. Myndin er fengin héðan en hana tók Kai T. Dragland fyrir NTNU.

Ég með skjalið.  En í smá letrinu stóð "med forbehold om bestått masteroppgave" [með fyrirvara um að mastersverkefnið verði samþykkt].


Lúin eftir langan dag. Ég hef greinilega lagt mig fram við að falla inn í umhverfið.

Mamma og pabbi stöldruðu við í Þrándheimi í nokkra daga. Við Karl-Kristian vorum alveg á kafi í verkefnavinnu þannig að eina leiðin sem foreldrar mínir sáu sér færa til að umgangast okkur var að koma og elda fyrir okkur kvöldmat. Við vorum aldeilis ekki óánægð með það og fengum meðal annars þriggja rétta máltíð með kálfakjöti í aðalrétt.

Ljúffengur kvöldverður.

Þegar heim (til Íslands) var komið þótti mér við hæfi að halda smá útskriftarpartý. Nokkrir vel valdir vinir komu og fögnuðu þessum tímamótum með mér og snæddu smárétti sem ég, Karl-Kristian og foreldrar mínir útbjuggum. Ég gleymdi alveg að taka myndir en Eva var svo sæt að leyfa mér að birta þessa fínu mynd sem hún tók af mér, Dísu og Ýri.

Loks er 19,5 ára skólaferli mínum lokið. Þetta tókst mér þrátt fyrir 
að þessar tvær hafi mikið reynt að trufla mig fyrstu 12 árin.


Ég fékk rosalega fallegar gjafir frá öllum. Ég skil eiginlega ekki hvernig allir gátu valið eitthvað sem mér finnst svona flott. Þið munuð örugglega fá að sjá gjafirnar í notkun þegar við erum flutt og búin að koma okkur fyrir í Osló.

12. júlí 2014

Annar kisubolli

Þegar við komum heim til tengdamömmu fann ég þennan kaffibolla í hillunni hennar og er búin að taka ástfóstri við honum. Ljósbleikur bolli með kisum. Gerist ekki væmnara. Í bakgrunn má sjá prjónadótið mitt (og skuggan af mér sé út í það farið).


8. júlí 2014

Sumarfrí

Á miðvikudaginn var ég loksins komin í sumarfrí og ég er búin að njóta þess í botn. Ég vaknaði við það að sólargeislarnir kitluðu andlit mitt og við Karl-Kristian skelltum okkur út í sólbað og hlustuðum á hljóðbók. Við erum búin að sitja úti í sólinni og hlusta á fyrstu bókina eftir Jo Nesbø sem er svar Noregs við Arnaldi Indriðasyni.

Úti að br

Á föstudaginn var okkur boðið í grillveislu hjá Bernt. Það er slatti af fólki sem vann með okkur á Samfundet sem flutti til Osló að námi loknu og þessi hópur hittist reglulega og rifjar upp gamla takta. Í sumar/haust bætumst við Karl-Kristian í þennan hóp og við gengum formlega í hópinn að loknum kvöldverði. Til að hljóta inngöngu þurftum við að semja skemmtiatriði. Okkur var úthlutað lista með tólf orðum og við áttum að nota a.m.k. átta í atriðinu. Við sömdum texta við þetta lag og smá dans og fengum frábærar viðtökur.

Allir tóku með sér eitthvað gott á grillið og mér leið mjög fullorðinslega þar sem ég sat í fólksbíl (ekki almenningssamgöngum) með fangið fullt af grillspjótum. Eftir inngönguathöfnina var ýmislegt brallað eins og sjá má á myndinum hér að neðan. Hæðarmunur var mældur með hallamáli og tommustokk og við fórum í pílukast.



Kristoffer var 5 mm hærri en Bernt og Halle var 16 mm hærri en Ingrid.

Halle var ekki látin halda á spjaldinu á meðan pílukastið fór fram.

Á sunnudaginn skelltum við Karl-Kristian okkur í göngutúr í Vestby og við rákumst á þennan krúttlega broddgölt.


Í gær tókum við lestina til Osló. Ég þurfti að versla smá og svo voru Ingrid og Halle (karlmaðurinn í gallaskyrtu og kvennmaðurinn á myndunum fyrir ofan) búin að bjóða okkur að koma að kíkja á íbúðina þeirra. Þau voru að kaupa sér íbúð (sem þau hafa ekki fengið afhenda ennþá) og við erum að vona að við fáum að taka við íbúðinni sem þau eru búin að vera að leigja. Þetta var mjög hugguleg tveggja herbergja íbúð í rólegu hverfi nálægt miðbænum og við vonum bara að leigusalanum lítist vel á okkur. Við fluttum frá Þrándheimi 27. júní og búum í Vestby (heimabær Karls-Kristians fyrir sunnan Osló (það tekur 35 mín að komast þangað með lest)) hjá mömmu hans Karls-Kristians.

Eftir íbúðarinnlitið skelltum við okkur á veitingastað sem við höldum mikið upp á. Hann heitir Mr. Hong og býður upp á asískan mat. Við fengum okkur mongólskt grillhlaðborð þar sem maður valdi sjálfur kjöt og grænmeti sem var svo steikt fyrir mann og svo var úrval af sósum, grjón, núðlur og grænmeti sem maður gat fengið sér með. Það sem var sniðugt við hlaðborðið var að það mátti fara eins margar ferðir og maður vildi en það kostaði 200 kr. ef maður kláraði matinn sinn en 275 kr. ef maður leifaði. Þetta stuðlar að því að fólk skammti sér ekki of mikið og ekki þarf að henda eins mikið af mat. Mjög sniðugt.


Myndir sem ég fékk lánaðar á internetinu.

 Hér erum við á öðrum diski. Þeir urðu ekki fleiri.


Lög sem eru mikið búin að vera í spilun upp á síðkastið:


6. júlí 2014

Mastersrugl III

Jæja, þá er ég loks búin að skila þessari blessuðu ritgerð. Ég skilaði kl. 4:38 að staðartíma, aðfaranótt miðvikudags og lagðist í rúmið skælbrosandi, ánægð með að hafa endurheimt líf mitt. Á morgun ætla ég að reyna að skella í færslu um lífið eftir skil en núna ætla ég að nýta það myndefni sem ég átti til í þriðja og síðasta þáttinn í seríunni Mastersrugl.



Nóakroppið frá Silju var kærkomið og kláraðist fljótt. Það passar rosalega vel með kaffi. Karl-Kristian tók að sér að viðra mig nokkrum sinnum og fyrir utan íþróttahöllina fundum við æfingartæki sem við urðum aðeins að prófa.

Sítróna sem props.

Þegar ég einbeiti mér fara hendurnar á mér oft af stað og áður en ég veit af því sit ég við tölvuna með fyrirmyndar fermingarhárgreiðslu. Þess á milli naga ég neglurnar, kroppa af mér naglalakkið og fikta svo ört í skrúfblýantinum/pennanum að það gæti gert hvern mann óðann.


Skálin var full af kirsuberjum en ég hámaði þau svo hratt í mig að ég hafði ekki rænu í að taka mynd fyrr en skálin var að tæmast.


Ég veit ekki hvar ég væri án kaffis. Frá páskum er ég búin að drekka u.þ.b. einn og hálfan líter á dag. Nú hugsið þið kannski "OMG!! 1,5 líter af kaffi á dag. Slíkt koffínmagn gæti drepið hana." En örvæntið ekki. Ég uppgötvaði fyrir löngu að koffínlaust kaffi er alveg jafn bragðgott og nota það eftir tvo bolla.


Það er nauðsynlegt að gefa sér tíma til að vera með kærastanum inn á milli. Þá er tilvalið að taka sjáflsmyndir.


Meira kaffi. Á myndinni til hægri sést að ég á það til að sulla smá kaffi hér og þar á skrifborðið.


Að lokum vil ég sýna ykkur þessa táknrænu mynd. Ég var í einhverju veseni með að opna forritið sem ég skrifaði ritgerðina í og prófaði ýmislegt. Þegar mér tókst það loks og ætlaði að opna pdf-skránna sem sýnir undir venjulegum kringumstæðum ritgerðina, birtist mér þessi nánast auða síða í staðinn með þessum creepy skilaboðum. Eins gott að það var ekki myrkur.