31. mars 2014

Laugardagsgöngutúr

Ég er búin að vera hálfslöpp síðan á miðvikudaginn og átti þess vegna frekar rólega helgi. Ég er aðallega búin að vera að horfa á Dexter og prjóna. Á laugardaginn skelltum við Karl-Kristian okkur samt aðeins í bæinn. Mig vantaði svo buxur og fann þessar í H&M. Ég keypti þær og er hæstánægð með þær. Við versluðum í matinn fyrir helgina og enduðum svo ferðina á kaffihúsi. Ég tók nokkrar skemmtilegar myndir á leiðinni sem þið sjáið hér fyrir neðan.

Karl-Kristian taldi að minnsta kosti 13 hjól á botni Niðarár.

Niðará var svo vatnslítil að þegar við gengum yfir brúnna sáum við til botns í henni og þar leyndust fjöldamörg reiðhjól. Þið getið reynt að telja hvað þið sjáið mörg á myndinni hér að ofan.


Karl-Kristian að gera grín við Niðarósdóminn.


Kisa ákvað að spássera aðeins á þessum bensi.

Í gær bauð frænka Karls-Kritians okkur í mat ásamt bróður hans. Þau frændsystkinin skiptast á að bjóða hvert öðru í mat og í gær fengum við ágætis spínatpæ og salat. Næst er komið að Karli-Kristiani (og mér) að útbúa mat handa frænku sinni og bróður.

25. mars 2014

Smal talk og út að borða

Í gær fór ég á fyrirlestur/námskeið um smal talk. NTNU (skólinn minn) tekur þátt í samstarfsverkefi sem á að stuðla að því að fleiri stelpur vilji stunda nám í tæknigreinum. Einu sinni á önn býður Jenteprosjektet Ada [ísl: Stelpuverkefnið Ada] stelpunum í tölvunarfræði, tölvuverkfræði og fjarskiptaverkfræði á námskeið og út að borða, ásamt konum sem hafa stundað svipað nám og vinna hjá fyrirtækjunum sem styrkja verkefnið. Námskeiðin eru yfirleitt á léttu nótunum og oftast hafa þau gengið út á að leysa skemmtileg verkefni í hópum. Að lokum er svo farið út að borða og við fáum yfirleitt mjög góðan mat og getum spjallað við hinar stelpurnar og konurnar.

Í gær kom kona sem hélt fyrirlestur um hvernig maður ætti að hegða sér í kring um fólk sem maður þekkir ekki (ennþá) og hvernig maður getur haldið uppi samræðum við ókunnuga. Inn á milli æfðum við okkur í að spyrja góðra spurninga, passa upp á líkamstjáninguna, koma inn í umræður o.fl. Eftir fyrirlesturinn fórum við svo út að borða. Við fengum gómsætan kjúkling og mjög mjúka súkkulaðiköku en ég hefði getað borðað eins og einn aðalrétt í viðbót. Ég held að engin okkar hafi farið södd út af veitingastaðunum. Í þetta skipti mundi ég loks að taka myndir en ég sé að ég má alveg bæta mig í myndatökunum.


Kjúklingur með sveppum og einhverri sellerístöppu og sósu. Þetta leit mun girnilegra út í alvörunni.


Mjög mjúk súkkulaðikaka, samtals 3 ber og u.þ.b. 1 msk. ís. Þess má geta að ég fékk stærstu ísslettuna á mínu borði.

24. mars 2014

Bústaðarferð og ungbarnavettlingar

Um helgina fór ég í bústaðarferð með Samfundetkrökkunum. Ég gleymdi alveg að taka myndir en við löbbuðum svona einn og hálfan tíma til að komast í bústaðinn af því að það var of mikill snjór á veginum til að keyra alla leið. Um kvöldið spiluðum við Cards against humanity frekar fyndið spil sem ég get alveg mælt með. Ég og Karl-Kristian ákváðum svo að fara heim á laugardagskvöldinu, þannig að við löbbuðum í tæpa tvo tíma að rútustoppinu. Sannkölluð gönguferð.

Ég prjónaði eina ungbarnavettlinga um helgina. Munstrið er upp úr Latvian Mittens eftir Lizbeth Upitis, sem ég keypti mér nýlega. Ég held að ef ég prjóni þetta munstur aftur, þá sleppi ég einlitu umferðunum þannig að það myndist tíglar. Ég held að það komi betur út.

Smábarnavettlingar án þumals.19. mars 2014

Norskt munstur

Ég fann mynd af svo fallegu norsku munstri með áttablaðarós á instagram. Ég ákvað að teikna það upp og það virðist auðvelt að prjóna (stutt á milli lita). Nú er bara spurningin hvað ég á að prjóna með þessu munstri.

Hér er ég búin að teikna upp munstrið. Ég laumaði auðvitað kaffibollanum með á myndina.


Lög sem eru mikið búin að vera í spilun upp á síðkastið:

16. mars 2014

Indverskt kvöld

Ein sem situr á sömu skrifstofu og ég er frá Indlandi og var að gifta sig. Af því tilefni bauð hún nokkrum konum frá skrifstofuganginum heim til sín til að sýna okkur myndir úr brúðkaupinu sínu. Hún bauð upp á alls konar indverskan mat og snarl og við hlustuðum á indverska tónlist og hún sýndi okkur myndir og sagði frá brúðkaupinu og hefðum í kring um það. Það var ótrúlega gaman að sjá alla litadýrðina og hvað þetta var ólíkt þeim brúðkaupum sem ég hef verið í.

Hún sýndi okkur líka skart og föt sem hún hafði notað í brúðkaupinu og dagana eftir brúðkaupið þegar vinir, nágrannar og ættingjar komu í heimsókn til að sjá brúðina. Hún leyfði okkur öllum að velja okkur eitt armband og hér fyrir neðan er mynd af fallega græna armbandinu sem ég valdi. Hún sýndi okkur líka hefbundin ökkla- og armbönd sem hún fékk, með einhvers konar bjöllum í, sem hún sagði að væru til þess gerð að maður heyrði greinilega hvort að konan væri að vinna á heimilinu. Svo virðist sem einhverjir hafi ætlað henni að vera aðeins meiri húsmóðir en hún ætlar sér sjálf. En henni fannst þetta hálffyndið.

Fallega indverska armbandið sem ég fékk.

Annars sátum við bara og spjölluðum og borðuðum þennan framandi mat. Umræðurnar voru mjög áhugaverðar þar sem að við vorum átta konur frá sjö löndum og það var gaman að heyra um skrítnar/öðruvísi hefðir í mismunandi löndum. Þetta var mjög skemmtilegt og ég er mjög ánægð með að hafa skellt mér, þrátt fyrir að ég þekkti engan og vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast. Ég held að ég hafi t.d. verið sú eina sem kom með fulla tösku af bjór, en þegar hún sagði að við ætluðum að borða og drekka bjóst námsmaðurinn ég auðvitað við því að ég ætti að taka með mér áfengi fyrir sjálfa mig. Ég var þó snögg að skilja töskuna eftir í ganginum þegar ég sá að hún var með vínflöskur og glös á borðinu, svo það kom ekki að sök.

Ég nennti ekki að bíða eftir strætó, þannig að ég labbaði heim. Það er nýfarið að snjóa hér og það var nokkurra sentimetra snjór á gangstéttinni. Undir snjónum var svo glerhált og ég með mín ákveðnu skref var alltaf að renna til. Svo einmitt þegar tveir sköfubílar voru að keyra löturhægt framhjá mér, datt ég beint á rassinn. Ég hef örugglega gert vinnudaginn skemmtilegri fyrir bílstjóra sköfubílanna.

14. mars 2014

Hopp og hí

Í síðustu viku fékk ég þá hugdettu að það væri tilvalið að sippa þegar maður nennir ekki út að hlaupa. Ég var því snögg að panta mér stafrænt sippuband á netinu með teljara og alles. Á þriðjudaginn kom gripurinn í hús og ég var svo spennt að byrja að sippa að ég var grand á því og tók 1000 hopp á u.þ.b. hálftíma. Það er líka stoppúr á sippubandinu.


Ég hef varla getað gengið síðustu þrjá daga. Í gær gat ég án gríns ekki gengið eðlilega. Það var eins og ég væri með tvo staurfætur og kústskaft í rassgatinu. Ég íhugaði alvarlega að takmarka vökvaneyslu svo ég þyrfti ekki að fara eins oft á klósettið. Þvílíkt ástand! 

Í dag eru harðsperrurnar loks farnar að hjaðna og ég sé fram á að geta sippað (og gengið eins og eðlileg manneskja, sé út í það farið) aftur um helgina. Ég held að ég dragi samt eitthvað úr hoppunum þangað til ég er komin í aðeins betri form.

12. mars 2014

Afmælisgjöf

Karl-Kristian átti afmæli 28. febrúar og mér fannst tilvalið að gefa honum gullfallegan kaffibolla, þakinn kisumyndum, í afmælisgjöf. Eins og við var búist varð hann hæstánægður. Þessi bolli er - líkt og drottningarbollinn -  keyptur á eBay en þessi var á föstu verði. Ég hefði ekki haft taugar í annað uppboð strax.

 Þrennt af því besta sem ég veit á einni og sömu mynd: Karl-Kristian,  kaffi og kisumyndir.*

Með þessum bolla var ég um leið að bæta upp fyrir kattarleysið sem mun hrjá hann það sem eftir er vegna ofnæmis míns. Núna á hann fleiri kisur en hann getur talið á fingrum sér. Sjáið hvað þær eru sætar.

Mjá.
*Glöggir lesendur sjá að ég heillast mikið af hlutum/fólki sem byrja á K.

11. mars 2014

Ungbarnavettlingar

Það voru svo mörg falleg munstur í prjónabókunum sem ég sagði frá hér og margar uppskriftir sem mig langaði að prófa. Ég ákvað að byrja á því að prjóna ungbarnavettlinga með einu munstrinu til að prófa aðeins. Það er gaman að prjóna svona fljótleg verkefni af og til. Hér fyrir neðan er mynd af þeim.

Ungbarnavettlingar með blómamunstri frá Kasmír í Himalajafjöllum.

Núna er ég byrjuð á útprjónuðum vettlingum með munstri frá írsku eyjunni Aran. Þeir eru grænir með kaðlamunstri og mér finnst rosalega gaman að prjóna þetta munstur. Ég hef aldrei áður prjónað kaðla en það gengur ljómandi vel. Ég hlakka til að sýna ykkur útkomuna.

Ef þú ert að leita að munstri, þá er ég búin að búa til nýtt en mjög svipað munsturur sem hægt er að kaupa hér

10. mars 2014

Morgunkaffi

Í dag drukkum við Karl-Kristian kaffið úr glænýjum bollum. Ég ætla að byrja á því að segja ykkur frá mínum bolla og svo skelli ég í færslu um bollan hans Karls-Kristians fljótlega.

Hamingjusöm með kaffi, úfið hár og skökk gleraugu.

Það er frekar vandræðalegt að segja frá því að þetta fyrsta (og enn sem komið er eina) eBayuppboð mitt var frekar misheppnað. Ég sá þennan frábæra bolla með mynd af Elísabetu drottningu öðrum megin og Filipi hinum megin, sem enginn(???) var búinn að bjóða í. Ég var því (aðeins of) snögg að bjóða 1 pund í hann. Ég fæ upp glugga "Staðfestir þú að bjóða 1 pund í bollan?" og ég bara "OK". Þá fæ ég upp nýjan glugga: "Þú hefur boðið 1 pund í Elísabetarkaffibolla auk 15 punda í sendingarkostnað." Allt í einu fór bollin frá því að vera hræódýr í að vera rándýr.

Þegar ég vann uppboðið sendi ég tölvupóst til eigandans og spurði hvort það væri nokkur séns á að senda hann fyrir minni pening og fékk sendingarkostnaðinn niður í 9 pund. Fjúff! En aftur að bollanum. Þessi bolli var sérstaklega gerður í tilefni af silfurbrúðkaupi þeirra 1997 og er með gullrönd efst. Afskaplega lekker! Ártölin fyrir neðan myndirnar af turtildúfunum eru 1947, árið sem þau giftu sig og 1997, árið sem bollinn var gerður og þau héldu upp á silfurbrúðkaup.

 Bollinn í allri sinni dýrð.

Nú halda eflaust margir að ég hafi sérstakan áhuga á konungsfjölskyldunni/kóngafólki almennt en það er kolrangt; Ég er bara veik fyrir bollum sem láta mig líta út fyrir að vera 50 árum eldri en ég er. 

7. mars 2014

Myndadagbók

Í gær þegar ég vaknaði ákvað ég að taka myndir af öllu sem ég gerði. Ég ætla að vera svo örlát að leyfa ykkur að njóta þess. Ég gleymdi þessu smá þegar kvölda tók en hér er dagurinn minn í myndum og máli.

11:00 - Var steinsofandi en reif mig á fætur 10 mín seinna. Ég hefði getað sofið a.m.k. klst lengur en ákvað að láta 10 tíma svefn nægja.

11:30 - Fékk mér ristað brauð með smjöri og osti ásamt ávaxtasafa í morgunmat.

12:00 - Nóg að gera. Todolisti fyrir mastersverkefnið.

13:00 - Reyndi að skilja hvernig greinarhöfundar hefðu metið aðferðina sína í þessari grein, til að geta gert hið sama við mína aðferð.

13:30- Hitað upp með kaffi og flísteppi. Takið eftir því hvað nefið á mér er lítið inni í bollanum. Híhí.

 14:00 - Fór út að skokka. Mér finnst ég eigi skilið verðlaun fyrir þessa litasamsetningu. Skærbleikur bolur, rauður jakki, bláir vettlingar, appelsínugulur iPodhaldari, dökkbleikir sokkar og eldrautt andlit.

Eftir allan hamaganginn gleymdi ég myndavélinni en ég man samt nokkurnveginn hvað ég gerði.
15:30 - Sturta
16:00 - Fór á Samfundet til að bera krapvélina sem við fengum lánaða út í bíl.
17:00 - Skellti pulsum í ofninn og bar þær fram með lompe, kartöflusalati, klettasalati, sinnepi og sweet chilisósu.
18:00 - Hélt áfram með mastersverkefnið.
21:45 - Talaði við mömmu, pabba, Orra og Ragnheiði Kristínu á Skype.

22:30 - Horfði á Hróa hött með Vegardi og prjónaði ungbarnavettling.

Þannig var gærdagurinn hjá mér. Núna ætla ég að skella mér upp í skóla með Karli-Kristiani og læra meira. Góða helgi!

5. mars 2014

Blómabolli

Er ekki kominn tími á annan kaffibolla? Ég er mjög hrifin af þessum. Hann er mjór, þannig að kaffið helst lengur heitt í honum en ég á það til að drekka kaffið mitt mjög hægt svo það endist lengur. Amma Mæja heillaðist svo af þessum bolla þegar hún kom í heimsókn 2011, að hún keypti sér alveg eins. Munstrið, fóturinn, handfangið og gullröndin er samsetning sem ég og konur yfir sjötugu getum ekki staðist.

Bleiki blómabollinn

Lög sem eru mikið búin að vera í spilun upp á síðkastið:
Fun. - All Alright
Cold War Kids - Jailbird
Highasakite - Since Last Wednesday

4. mars 2014

Bolludagur

Í gær komu Ýr og Linn í heimsókn og við bökuðum vatnsdeigsbollur. Bolludagurinn í Noregi er á sunnudeginum. Þá eru bakaðar gerbollur sem maður stráir flórsykri yfir og svo setur maður einhvers konar vanillukrem inn í þær.

Ég hef alltaf (nema í fyrra og hitt í fyrra) haldið bolludaginn á mánudeginum og gert vatnsdeigsbollur með bræddu súkkulaði, sultu og rjóma. Namm! Það var ekki annað að sjá en að Norðmennirnir kunnu vel við íslensku bollurnar. Strákarnir voru mjög ánægðir þegar ég sagði að þeir mættu fá sér eina í viðbót.

Ýr og Linn gerðu svolítið grín að mér fyrir að vera með svo mikið súkkulaði í andlitinu. Mér er bara alveg ómögulegt að borða bolludagsbollur án þess að gefa öllu andlitinu með mér. Ég var einmitt að rifja upp þegar ég átti leið inn í Reykjavík á bolludaginn og það var ekki fyrr en ég kom út úr strætó og hitti vinkonu mína að hún tilkynnti mér að ég væri með súkkulaði á hökunni og kinninni. Ég var þá búin að mæta mörgum brosandi andlitum á leiðinni og hélt að allir væru bara svona vinalegir.

Nammi namm!

Eigið gleðilegan sprengidag!

3. mars 2014

Ráðstefna, strandpartý og ugluvettlingar

Við vorum með strandpartý á Samfundet (stúdentafélag) um helgina. Þetta er árlegur viðburður í nefndinni/hópnum sem ég er í. Við fyllum gólfið í aðstöðunni okkar af sandi, setjum ofnana í botn og leigjum krapvél, þannig að það er sannkallaður sumarfílingur. Karl-Kristian átti afmæli á föstudeginum, svo hann fékk heljarinar afmælisveislu. Vinur okkar kom líka í heimsókn frá Bergen til að taka þátt í strandpartýinu. Við Karl-Kristian erum orðin svo gömul að við nenntum ekki að taka þátt á laugardeginum líka, en við komum þeim mun sterkari tilbaka á sunnudeginum til að bera allan sandinn aftur út og þrífa. 

Á laugardaginn kláraði ég ugluvettlingana sem ég er búin að vera með á prjónunum. Ég keypti uppskriftina hér. Upphaflega áttu þeir að vera á mig, en þeir urðu stærri en ég ætlaði mér, þannig að Karl-Kristian fékk þá.Í öllum prjónabókahamaganginum gleymdi ég að segja frá því að á mánudaginn var ég á ráðstefnu. Fjögur stór hugbúnaðarlausnafyrirtæki sendu nokkra starfsmenn til Þrándheims til að halda stutta fyrirlestra fyrir okkur um nýjustu tækni og fyrirbæri innan bransans. Eitt þessa fjögurra fyrirtækja var fyrirtækið sem ég er að fara að vinna hjá frá og með ágúst, Steria. Um kvöldið fórum við - starfsmenn fyrirtækjanna og nemendur - svo á vetingastað þar sem boðið var upp á tapas og bjór. Það vildi svo skemmtilega til að sessunautur minn hafði unnið á Samfundet 1987 og 1989, við að gera upp húsnæði félagsins, en ég er einmitt búin að vinna við það síðan 2009.