4. mars 2014

Bolludagur

Í gær komu Ýr og Linn í heimsókn og við bökuðum vatnsdeigsbollur. Bolludagurinn í Noregi er á sunnudeginum. Þá eru bakaðar gerbollur sem maður stráir flórsykri yfir og svo setur maður einhvers konar vanillukrem inn í þær.

Ég hef alltaf (nema í fyrra og hitt í fyrra) haldið bolludaginn á mánudeginum og gert vatnsdeigsbollur með bræddu súkkulaði, sultu og rjóma. Namm! Það var ekki annað að sjá en að Norðmennirnir kunnu vel við íslensku bollurnar. Strákarnir voru mjög ánægðir þegar ég sagði að þeir mættu fá sér eina í viðbót.

Ýr og Linn gerðu svolítið grín að mér fyrir að vera með svo mikið súkkulaði í andlitinu. Mér er bara alveg ómögulegt að borða bolludagsbollur án þess að gefa öllu andlitinu með mér. Ég var einmitt að rifja upp þegar ég átti leið inn í Reykjavík á bolludaginn og það var ekki fyrr en ég kom út úr strætó og hitti vinkonu mína að hún tilkynnti mér að ég væri með súkkulaði á hökunni og kinninni. Ég var þá búin að mæta mörgum brosandi andlitum á leiðinni og hélt að allir væru bara svona vinalegir.

Nammi namm!

Eigið gleðilegan sprengidag!

1 ummæli:

  1. Girnileg bolla hjá þér og gleðilegan sprengidag sömuleiðis :)

    SvaraEyða