16. mars 2014

Indverskt kvöld

Ein sem situr á sömu skrifstofu og ég er frá Indlandi og var að gifta sig. Af því tilefni bauð hún nokkrum konum frá skrifstofuganginum heim til sín til að sýna okkur myndir úr brúðkaupinu sínu. Hún bauð upp á alls konar indverskan mat og snarl og við hlustuðum á indverska tónlist og hún sýndi okkur myndir og sagði frá brúðkaupinu og hefðum í kring um það. Það var ótrúlega gaman að sjá alla litadýrðina og hvað þetta var ólíkt þeim brúðkaupum sem ég hef verið í.

Hún sýndi okkur líka skart og föt sem hún hafði notað í brúðkaupinu og dagana eftir brúðkaupið þegar vinir, nágrannar og ættingjar komu í heimsókn til að sjá brúðina. Hún leyfði okkur öllum að velja okkur eitt armband og hér fyrir neðan er mynd af fallega græna armbandinu sem ég valdi. Hún sýndi okkur líka hefbundin ökkla- og armbönd sem hún fékk, með einhvers konar bjöllum í, sem hún sagði að væru til þess gerð að maður heyrði greinilega hvort að konan væri að vinna á heimilinu. Svo virðist sem einhverjir hafi ætlað henni að vera aðeins meiri húsmóðir en hún ætlar sér sjálf. En henni fannst þetta hálffyndið.

Fallega indverska armbandið sem ég fékk.

Annars sátum við bara og spjölluðum og borðuðum þennan framandi mat. Umræðurnar voru mjög áhugaverðar þar sem að við vorum átta konur frá sjö löndum og það var gaman að heyra um skrítnar/öðruvísi hefðir í mismunandi löndum. Þetta var mjög skemmtilegt og ég er mjög ánægð með að hafa skellt mér, þrátt fyrir að ég þekkti engan og vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast. Ég held að ég hafi t.d. verið sú eina sem kom með fulla tösku af bjór, en þegar hún sagði að við ætluðum að borða og drekka bjóst námsmaðurinn ég auðvitað við því að ég ætti að taka með mér áfengi fyrir sjálfa mig. Ég var þó snögg að skilja töskuna eftir í ganginum þegar ég sá að hún var með vínflöskur og glös á borðinu, svo það kom ekki að sök.

Ég nennti ekki að bíða eftir strætó, þannig að ég labbaði heim. Það er nýfarið að snjóa hér og það var nokkurra sentimetra snjór á gangstéttinni. Undir snjónum var svo glerhált og ég með mín ákveðnu skref var alltaf að renna til. Svo einmitt þegar tveir sköfubílar voru að keyra löturhægt framhjá mér, datt ég beint á rassinn. Ég hef örugglega gert vinnudaginn skemmtilegri fyrir bílstjóra sköfubílanna.

2 ummæli:

  1. Haha vá þetta er bara eins og að setja kattarbjöllu á konurnar!

    SvaraEyða