25. mars 2014

Smal talk og út að borða

Í gær fór ég á fyrirlestur/námskeið um smal talk. NTNU (skólinn minn) tekur þátt í samstarfsverkefi sem á að stuðla að því að fleiri stelpur vilji stunda nám í tæknigreinum. Einu sinni á önn býður Jenteprosjektet Ada [ísl: Stelpuverkefnið Ada] stelpunum í tölvunarfræði, tölvuverkfræði og fjarskiptaverkfræði á námskeið og út að borða, ásamt konum sem hafa stundað svipað nám og vinna hjá fyrirtækjunum sem styrkja verkefnið. Námskeiðin eru yfirleitt á léttu nótunum og oftast hafa þau gengið út á að leysa skemmtileg verkefni í hópum. Að lokum er svo farið út að borða og við fáum yfirleitt mjög góðan mat og getum spjallað við hinar stelpurnar og konurnar.

Í gær kom kona sem hélt fyrirlestur um hvernig maður ætti að hegða sér í kring um fólk sem maður þekkir ekki (ennþá) og hvernig maður getur haldið uppi samræðum við ókunnuga. Inn á milli æfðum við okkur í að spyrja góðra spurninga, passa upp á líkamstjáninguna, koma inn í umræður o.fl. Eftir fyrirlesturinn fórum við svo út að borða. Við fengum gómsætan kjúkling og mjög mjúka súkkulaðiköku en ég hefði getað borðað eins og einn aðalrétt í viðbót. Ég held að engin okkar hafi farið södd út af veitingastaðunum. Í þetta skipti mundi ég loks að taka myndir en ég sé að ég má alveg bæta mig í myndatökunum.


Kjúklingur með sveppum og einhverri sellerístöppu og sósu. Þetta leit mun girnilegra út í alvörunni.


Mjög mjúk súkkulaðikaka, samtals 3 ber og u.þ.b. 1 msk. ís. Þess má geta að ég fékk stærstu ísslettuna á mínu borði.

3 ummæli:

  1. Var uppástunga um eitthvað annað umræðuefni en veðrið? Við ókunnuga meina ég :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hún kom ekki með neinar nýjar byltingarkenndar hugmyndir en maður getur reynt að nota aðstæður. Ef maður er t.d. í vísindaferð getur maður spurt hvaða bekk/námi fólk er í eða sagt eitthvað um matinn.

      Eyða
  2. Sannarlega ekki byltingarkennd hugmynd :) haha

    SvaraEyða