25. febrúar 2014

Prjónabækur

Í byrjun þessa mánaðar pantaði ég mér tvær prjónabækur með vettlingauppskrifum og ég er búin að bíða eftir þeim eins og leikskólakrakki eftir afmælisveislu. Í dag komu þær loksins og ég nánast hljóp út á pósthús. Svona líta þær út.

Latvian Mittens eftir Lizbeth Upitis og Folk Mittens eftir Marcia Lewandowski

Þessi til hægri er með uppskriftir að hefbundnum lettneskum vettlingum. Þetta er fyrst og fremst munsturbók og maður þarf í flestum tilvikum að finna sjálfur út hvaða garn og prjóna maður notar og hversu margar endurtekningar maður hefur af munstrinu. Það eru sem betur fer margir búnir að prjóna vettlinga úr henni og setja á ravelry.com þannig að það er hægt að nota þá sem viðmið. Mér fannst svolítið athuganarvert að í einu lettneska munstrinu var hakakross.

Þessi til vinstri inniheldur uppskriftir að hefbundnum vettlingum frá öllum heimshornum m.a. tvær lopavettlingauppskriftir. Það er auðveldara að fara eftir þessari bók, af því að í henni eru heilar uppskriftir með þumli, garnuppástungum o.s.frv. Báðar bækurnar eru ótrúlega flottar og mig langar að prjóna fullt upp úr þeim. Ég hlakka til að sýna ykkur myndir af afrakstrinum (þegar þar að kemur).

20. febrúar 2014

Kósýkvöld og kosningavaka

Það er búið að vera mikið að gera í skólanum þessa vikuna en við reynum að gera eitthvað skemmtilegt á kvöldin. Á mánudaginn vorum við með kósýkvöld. Við Karl-Kristian fengum okkur kakó og horfðum á Modern Family.

 Ég á þessa fínu kakóbolla með fullt af dýrum á.

Ég er búin að prjóna ullarsokka á okkur bæði sem eru hlýir og góðir og fullkomnir fyrir kósýkvöld. Ég bjó munstrin til sjálf og er bara nokkuð ánægð með þá.

Á þriðjudaginn fórum við í bíó á Wolf of Wall Street. Okkur fannst hún frekar langdregin og mér fannst hún beinlínis leiðinleg. Í gær horfðum við á kosningu nýs leiðtoga Studentersamfundet. Það er stúdentafélag sem ég á eftir að segja ykkur betur frá. Karl-Kristian og Vegard skemmtu sér konunglega í spjallinu sem var á sömu heimasíðu og kosningavideoið. Þar var s.s. hægt að ræða kosningarnar og allt mögulegt annað undir dulnefni. Það var víst mikið talað um þurrsjampó. Ég prjónaði á meðan. Ég er búin að vera að prjóna ugluvettlinga sem ég skal sýna ykkur þegar þeir eru tilbúnir. Ég á bara þumlana eftir núna. 

17. febrúar 2014

Helstu fréttir frá Noregi: skíðagönguvonsvik og rigning

Góðan daginn! Helgin var viðburðalítil hér í Þrándheimi. Á laugardaginn bakaði Karl-Kristian ljómandi góð rúnstykki og um kvöldið elduðum vð taco með Vegardi* og horfðum á sjónavarpið. Í gær horfðum við á Vetrarólympíuleikana. Norðmenn eiga mjög marga þátttakendur þar og allir virðast hafa áhuga á þessu. Hér segir maður Ólympíuleikarnir og Sumarólympíuleikarnir, ekki Vetrarólympíuleikarnir og Ólympíuleikarnir. Það eru allir miður sín, og jafnvel reiðir, yfir því að norsku boðhlaupsliðin (kvenna og karla) í skíðagöngu lentu ekki í þremur efstu sætunum. Mér finnst ágætt að horfa á þetta á meðan ég prjóna.

Í dag þegar við fórum á fætur sáum við að það rigndi. Það er ekki oft sem maður gleðst yfir slíku, en það hefur ekki verið úrkoma hér á stóru svæði í margar vikur. Það hafa verið stórir brunar í fleiri bæjum víðsvegar í landinu, þar sem heilu göturnar hafa brunnið og fólk misst heimili sín. Ég gleðst líka sérstaklega af því að ég fékk svo fallega regnkápu í afmælisgjöf og ég hef nánast ekkert getað notað hana. Ég ætla þess vegna að skella mér í regnkápuna og stígvéli núna og trítla í skólann.

*Vegard er vinur okkar og sambýlismaður.

14. febrúar 2014

Kaffi með stórubörnunum

Í gær og í dag skellti ég mér í skólann. Ég er með lesaðstöðu í lífupplýsingafræðideildinni. Flestir sem eru með skrifstofu þar eru prófessorar og aðrir sem eru að vinna að eftirdoktorsverkefnum, þannig að mér líður svolítið eins og leikskólakrakka í stórubarnaskóla og ég þori auðvitað ekkert að tala við stóru börnin.

Það besta við þessa aðstöðu er kaffistofan; Þar er alltaf heitt á könnunni og að minni bestu vitund er kaffið ókeypis. Ég þori samt aldrei að sækja mér kaffi í hádeginu af því að þá er svo mikið af fólki (stórubörnum) þar að borða hádegismat svo ég reyni að vera búin að sækja kaffi aðeins fyrir 12. Hér að neðan er mynd af kaffibollanum sem ég nota í skólanum.


Þessi heldur kaffinu heitu fyrir mig. Ég skellti á hann límiða með kú í bleikum buxum til að lífga aðeins upp á þennan annars hversdagslega bolla.

Ég vona að þið eigið ljómandi góðan föstudag. Næst ætla ég kannski að skrifa um eitthvað annað en kaffi.

12. febrúar 2014

Kaffi

Mér finnst kaffi alveg rosalega gott og eins og ég nefni hér til hliðar hef ég gaman af því að drekka kaffi úr fallegum og ljótum bollum. Það er bara ekki eins skemmtilegt að horfa á hvítan hversdagslegan bolla með bankalógói eða því sem verra er engu. Mér datt í hug að sýna ykkur uppáhalds kaffibollana mína og byrja á þessum hérna.

Glær blómabolli úr IKEA


Þessi finnst mér mjög fallegur. Það er eitthvað við það að drekka kaffi úr glærum bolla sem heillar mig. Það er svolítið eins og að drekka kaffi úr glasi (sem brýtur öll norm) en samt er þetta bolli!!! Ég á tvo svona sem ég keypti í IKEA. Til gamans má geta að Orri, bróðir minn, á líka svona bolla og stundum þegar ég drekk úr þessum bolla sé ég fyrir mér svona "Á sama tíma í Stokkhólmi"-mynd af Orra og Unni að drekka úr eins bolla.

11. febrúar 2014

Kvöldmatur

Við Karl-Kristian eldum alltaf kvöldmatinn saman og í dag ákváðum við að fara eftir uppskrift sem mamma mælti með - þessari. Við lentum í svolitlu veseni af því að við notuðum kjúklingahakk* í staðinn fyrir nautahakk. Kjúklingahakkið er miklu blautara í sér, þannig að það festist svakalega við bökunarpappírinn og það var ekki hægt að gera rúllu. Við vorum næstum því búin að gefast upp þegar mér datt í hug að skafa þetta bara af pappírnum, blanda öllu saman og setja í pínulítið eldfast mót. Það svínvirkaði.

Ég hefði átt að taka myndir af bökunarpappírnum og vonleysissvipnum á okkur, en þið verðið að láta ykkur nægja mynd af matnum þegar hann var tilbúinn.

Ég sé það núna hvað brúndrapplitaði liturinn er ríkjandi á myndinni og dauðsé eftir því að hafa ekki haft hendurnar á mér með á myndinni, en svo skemmtilega vill til að naglalakkið sem ég er með, er í þessum sama lit.

Þetta var ljómandi gott og ég er viss um að þessi réttur eigi eftir að verða fastagestur á kvöldverðarborðinu hjá okkur.


*Kjúklingahakk er mjög vinsælt í Noregi og er oft notað í staðinn fyrir nautahakk. Það er miklu ódýrari og mér finnst það miklu betra, enda mun hrifnari af hvítu kjöti en rauðu.

Venjulegur dagur í lífi mastersnema

Eftir að hafa lesið svolítið af bloggum undanfarið, ákvað ég að láta enn einu sinni reyna á það að blogga sjálf. Ég veit enn ekki alveg hvað ég ætla að blogga um, en markmiðið er að vinir og fjölskylda geti fengið smá innsýn í hvað ég er að bralla í Þrándheimi.

Ég er að vinna að mastersverkefninu mínu og dagar mínir einkennast þess vegna mikið af kaffidrykkju, internetrápi, tónlist og kósýfötum.

Svona lítur mastersverkefni út. Frá vinstri: Python script (man ómögulega hvað script heitir á íslensku), ljótt graf sem ég á eftir að bæta og hægri skjárinn er svo fullur af gluggum úr R, sem ég nota til að vinna úr gagnasettinu mínu.

Ég er svo heppin að vera með stóran glugga í herberginu mínu og útsýni yfir Niðará. Hér fyrir neðan er mynd af sólskininu sem blasti við mér frá skrifborðinu mínu í dag.


Lög sem eru mikið búin að vera í spilun upp á síðkastið:
The Antlers - Kettering