31. júlí 2014

Útskrift

Bloggið er búið að vera í smá sumarfríi. Ég ætla smám saman að skrifa færslur um allt (ok, kannski ekki allt) sem ég er búin að vera að bralla í sumar. Núna er bara vika þangað til ég fer aftur til Noregs og á mánudaginn eftir rúmlega tvær vikur byrja ég svo í nýju vinnunni. Ég hlakka rosalega mikið til og ætla að reyna að leyfa ykkur að fylgjast með hér á blogginu.

Ég átti alltaf eftir að segja frá útskriftinni. Hún fór fram 23. maí áður en við áttum að skila ritgerðunum. Þetta er sennilega gert af því að það eru svo margir sem flytja frá Þrándheimi eftir námið og fáir hefðu mætt í útskriftina ef bíða ætti eftir því að allir væru búnir að skila.

Það var fyrst haldin útskriftarathöfn fyrir nokkrar greinar saman. Svo voru nokkrir úr bekknum búnir að skipuleggja sérathöfn fyrir tölvunarfræðina ásamt þriggja rétta máltíð með skemmtiatriðum um kvöldið. Mamma og pabbi komu í heimsókn til að fagna þessu með mér (fyrir fram) og Karl-Kristian var líka með þrátt fyrir að vera á lokasprettinum í ritgerðaskrifum sjálfur.

Hér erum við á leiðinni á athöfnina.

Í útskriftargjöf frá mömmu og pabba fékk ég íslenskan þjóðbúning (20. aldar upphlut) sem mamma átti. Hann var sniðinn á og notaður af móðurömmu hennar sem gaf mömmu hann svo. Mamma saumaði nýtt pils (hitt var orðið ónýtt) og svuntu. Hún prjónaði líka nýja skotthúfu handa mér vegna þess að sú sem langaamma átti var með einhvers konar pulsu inni í sem kom mjög illa út í sléttu hári. 

Í Noregi fá mjög margar stelpur þjóðbúning fyrir ferminguna sína og þeim er oft klæðst við hátíðarhöld og þá sérstaklega á þjóðhátíðardaginn. Strákarnir fá sjaldnar búning (sennilega vegna þess að margir eru ekki hættir að vaxa) en sumir fá sér svo seinna. Það eru til margar útgáfur af þjóðbúningum sem bundnir eru mismunandi bæjum/landshlutum. Búningarnir sem stelpurnar eru í hér fyrir neðan eru frá Bergen, Nordland og Gudbrandsdal.

Hér er tölvunarfræðiútskriftarhópurinn. Stelpurnar eru allar í þjóðbúningum og líka strákurinn þremur lengra til hægri en ég, en hann sést því miður illa. Myndin er fengin héðan en hana tók Kai T. Dragland fyrir NTNU.

Ég með skjalið.  En í smá letrinu stóð "med forbehold om bestått masteroppgave" [með fyrirvara um að mastersverkefnið verði samþykkt].


Lúin eftir langan dag. Ég hef greinilega lagt mig fram við að falla inn í umhverfið.

Mamma og pabbi stöldruðu við í Þrándheimi í nokkra daga. Við Karl-Kristian vorum alveg á kafi í verkefnavinnu þannig að eina leiðin sem foreldrar mínir sáu sér færa til að umgangast okkur var að koma og elda fyrir okkur kvöldmat. Við vorum aldeilis ekki óánægð með það og fengum meðal annars þriggja rétta máltíð með kálfakjöti í aðalrétt.

Ljúffengur kvöldverður.

Þegar heim (til Íslands) var komið þótti mér við hæfi að halda smá útskriftarpartý. Nokkrir vel valdir vinir komu og fögnuðu þessum tímamótum með mér og snæddu smárétti sem ég, Karl-Kristian og foreldrar mínir útbjuggum. Ég gleymdi alveg að taka myndir en Eva var svo sæt að leyfa mér að birta þessa fínu mynd sem hún tók af mér, Dísu og Ýri.

Loks er 19,5 ára skólaferli mínum lokið. Þetta tókst mér þrátt fyrir 
að þessar tvær hafi mikið reynt að trufla mig fyrstu 12 árin.


Ég fékk rosalega fallegar gjafir frá öllum. Ég skil eiginlega ekki hvernig allir gátu valið eitthvað sem mér finnst svona flott. Þið munuð örugglega fá að sjá gjafirnar í notkun þegar við erum flutt og búin að koma okkur fyrir í Osló.

1 ummæli:

  1. Skemmtileg færsla og búningurinn þinn ofboðslega fallegur :) Ég fattaði einmitt að ég tók engar myndir í veislunni heldur, mikið varð ég svekkt. En það var æðislega gaman að hitta þig og alla.

    SvaraEyða