16. maí 2015

Sófar í stúdentaíbúð

Ég átti alltaf eftir að sýna ykkur sófana sem við Vegard og Karl-Kristian vorum með í íbúðinni okkar í Þrándheimi. Þið trúið því sennilega ekki hvað við vorum heppin, en við borguðum ekki krónu fyrir þá (ég sver það). Vegard átti einn fyrir, sem hann hafði fengið gefins frá Kristoffer vini okkar (hann má sjá víða hér á blogginu), þegar Kristoffer flutti til Oslóar.

Ótrúlega lekker litasamsetning og munstur.
Þar sem að við vorum með stóra stofu og bjuggum beint á móti Samfundet (s.s. hinn fullkomni fyrirpartýsstaður) varð okkur fljótlega ljóst að við þyrftum 1-2 sófa í viðbót. Við ætluðum varla að trúa okkar eigin augum þegar við rákumst á þennan gefins á internetinu. Stór hornsófi alveg í stíl við þann sem við áttum fyrir.

Sjáið þetta fallega munstur. Hann var reyndar úr efni sem að ég vil helst ekki snerta, þannig að ég sat alltaf í hinum sófanum og naut bara fegurðarinnar þaðan.


14. maí 2015

Svipmyndir frá síðustu mánuðum

Ég veit að margir eru að velta því fyrir sér hvað ég er búin að vera að bralla upp á síðkastið og hef ákveðið að deila með ykkur nokkrum myndum frá þessu tímabili (tímabilinu síðkastið).

Í janúar var árshátíð með vinnunni. Ylvisbræðurnir komu og sungu fyrir okkur nokkur lög. Þar á meðal What does the fox say. Hér fyrir neðan sjáið þið mynd af því.

Ylvisbræðurnir taka lagið. Takið eftir því hvað það eru margir að taka vídjó.
Í febrúar komu Hörður Mar, Orri og Unnur* í heimsókn. Við kíktum meðal annars á bóndabæjarleikskólann sem er hérna hinum megin við götuna og tókum neðanjarðarlest. Hér fyrir neðan má sjá myndir af því.

Hestur og asni.

Við vorum öll í vettlingum með áttablaðarósum sem amma Mæja hafði prjónað.

Ég fékk þá flugu í höfuðið að búa til morgunkorn. Ég var svo pirruð á því að það skildi ekki vera til eitt einasta morgunkorn í búðinni án viðbætts sykurs eða sætuefna. Ég eyddi öruglega meira en hálftíma í að saxa mismunandi hnetur, svo bætti ég við smá kókosmjöli og skellti þessu í ofninn. Ég skrapp aðeins á klósettið á meðan þetta var í ofninum og þegar ég kom til baka blasti þessi sjón við mér:

Brennt morgunkorn. Ég náði samt að skrapa saman tveimur skömmtum sem voru nokkurn veginn óbrenndir.

Við Karl-Kristian fengum okkur göngutúr niður í Tøyenparken til að kíkja á landsmót í Quidditch. Þetta var frekar spes. Það var gaur í gulum búningi með svona hala, sem var gullna eldingin.

Quiddichmót. Í bakgrunn má sjá háhýsið þar sem skrifstofan mín er.
Dag einn birtist þessi fína Tinnagreiðsla undan húfunni hans Karls-Kristians. Mér fannst það mjög skemmtilegt.

Tinni og Tinna.

Í apríl fengum við þetta fína sumarveður í nokkra daga. Við skelltum okkur að sjálfsögðu út í göngutúr.
Karl-Kristian við gult tré í blóma. Takið eftir konunni á svölum hússins fyrir aftan. Til vinstri er ein góð kærustuparamynd.

Við skelltum okkur í enn einn göngutúrinn til að skoða nýju íbúðina sem við vorum að kaupa. Hún er í hægri blokkinni hér fyrir neðan, u.þ.b. fyrir miðju.
Hér er verið að byggja nýju íbúðina okkar. Hún á að vera tilbúin á milli apríl og júlí á næsta ári.
Á föstudaginn fyrir tæpri viku síðan hittumst við nokkrir vinirnir og tókum þátt í quizi. Við stóðum okkur vel og lentum í 2. sæti. Við erum búin að taka svo oft þátt í þessu föstudagsquizi að quizmeistarinn, Frank, er farinn að kannast við okkur.

Allir hamingjusamir með annað sætið. Til gamans má geta að allar stelpurnar á þessari mynd heita Ingrid.


*Bræður mínir og kærasta Orra. Þau eru fædd í stafrófsröð og hið sama gildir um okkur systkinin. Ég og Unnur erum samt ekki fæddar í stafrófsröð og Karl-Kristian er alveg út úr kú.

14. mars 2015

Sokkar í jólagjöf

Í sumar fékk ég að kíkja í gamla íslenska munsturbók hjá mömmu. Bókin heitir Tvíbandaðir vettlingar og er gefin út af Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Þetta eru uppskriftir að vettlingum úr mjög fínu garni. Það voru mörg falleg munstur sem mig langaði að prófa, en þar sem að það er erfitt að komast yfir garn sem er nógu þunnt í svona vettlinga, ákvað ég að prjóna sokka í staðinn.
Eftir að hafa prjónað munsturbekkinn varð mér fljótt ljóst að þeir yrðu of þröngir á mig og ákvað í staðinn að gefa Unni mágkonu minni þá í jólagjöf. Ég náði reyndar ekki að klára þá báða fyrir jól, þannig að hún fékk bara einn sokk í jólagjöf og svo hamaðist ég við að klára þann seinni á milli jóla og nýárs og rétt náði að klára þá áður en hún fór aftur til Svíþjóðar. Hér er mynd af afrakstrinum.

Vettlingar með kóngulóamunstri og doppum. Uppskriftin er eftir Kristínu Jónsdóttur Schmidhauser.

7. mars 2015

Utanlandsferð

Í byrjun september bauð Kristoffer okkur með sér til Svíþjóðar í sumarbústað foreldra sinna. Þetta var um það bil tveggja tíma akstur frá Osló, minnir mig.  Kristoffer, Gudrun og Bernt lögðu fyrst af stað og sáu um að fara í Systembolaget (ríkið í Svíþjóð) og í matvörubúð að kaupa í kvöldmatinn. Ég og Karl-Kristian fengum far hjá Ingrid og Halle og við sáum um innkaup fyrir það sem eftir var ferðar. Við gleymdum okkur aðeins í nammibarnum og keyptum óvart eina fötu á mann. Úps.

Þegar við fórum að nálgast bústaðinn kom Kristoffer keyrandi á móti okkur á sláttuvélinni sinni og við fengum sláttuvélarfylgd alla leið að bústaðnum. Þegar inn var komið átti bara eftir að leggja á borð og svo báru þau sem á undan komu fram dýrindistakómáltíð.

Kristoffer keyrir á undan okkur á sláttuvélinni. Mér sýnist hraðamælirinn benda á 10 km/klst sem er fínn hraði.

Kvöldið fór svo í spjall, trampólín og spurningaspil. Við Ingrid vorum mjög gott spurningaspilalið. Ég kunni svörin við öllum (báðum) sjúkdómaspurningunum og Ingrid kunni allt annað (spurning um hvort Ingrid hafi verið jafnánægð með liðsfélagan og ég).

Strákarnir hita upp fyrir spurningaleik. Fremst á myndinni má sjá nokkrar sælgætisfötur. Ég vildi að ég gæti sagt að við hefðum ekki klárað úr þeim.

Halle var quizmaster í upphituninni.

Við stelpurnar vorum í miklu stuði 

Á laugardeginum vöknuðum við við dásamlegan ilm. Bernt var fyrstur á fætur og hófst strax við handa að steikja egg og beikon ofan í liðið. Þvílíkur öðlingur. Eftir morgunmatinn skelltum við okkur út að slá grasið, við fórum í krokket, fengum okkur pylsur í hádegismat, átum nammi, elduðum lasanja og höfðum það notalegt.

Bernt við morgunverðarmatseldina til vinstri og til hægri undirbýr Gudrun sig andlega fyrir krokket á meðan hún fylgist með grasslætti.

Kristoffer tók þessa fínu mynd af okkur Ingrid að slá gras. Hann var svo yndæll að leyfa mér að deila henni með ykkur.

Ég mátti til með að taka mynd af þessum fínu bollum sem héngu svona fallega í eldhúsinu.
Þetta var mjög góð ferð og ég vona að Kristoffer bjóði okkur aftur með sér þangað. Það vill reyndar svo skemmtilega til að fjölskyldan hans Bernts á líka sumarbústað og við erum að fara þangað þarnæstu helgi. Það verður fjör.

4. mars 2015

Munsturhugleiðingar

Ég er búin að vera eitthvað slöpp tvo síðustu daga og hef ekkert farið í vinnu. Vesenið með mig er að þegar ég er veik verður mér yfirleitt svo illt í augunum af því að horfa á skjá, þannig að ég þarf að finna mér einhverja skjálausa afþreyingu (engin tölva, ekkert sjónvarp, enginn sími). Í gær slakaði ég bara á og las svolítið og í dag erum við mæðgurnar/mæðginin búin að vera að skoða prjónabækurnar mínar í leit að munstri sem hægt er að nota í peysu á litla krílið.

Maður á þær ófáar prjónabækurnar. Þetta er ekki helmingurinn.
Mig hefur lengi langað til að prjóna mér Mariuspeysu (eins og þetta erkinorska munstur á myndinni hér fyrir neðan heitir) en þar sem ég hef aldrei prjónað peysu er tilvalið að byrja á einni lítilli. Mamma og pabbi gáfu mér Mariusmunsturbók í afmælisgjöf og garn í peysu í jólagjöf, þannig að það er í rauninni allt klárt. Ég er að hugsa um að bíða samt með hana fram á vetur, svo barnið vaxi ekki upp úr henni strax.

 Myndin er fengin héðan en þetta sama munstur er í bókinni minni sem heitir Marius strikkebok.
Okkur leist svolítið vel á þetta. En ekki í þessum lit samt. Þetta er munstur úr More Sensational Knitted Socks eftir Charlene Schurch.

Okkur fannst þetta munstur líka alveg afspyrnufallegt en ég veit ekki hvort ég leggi í það. Þetta er úr bókinni Latvieša Cimdi eftir Maruta Grasmane (meira um þá dásemdar bók seinna). 
Ég er búin að vera aðeins betri núna seinni partinn og hef þess vegna aðeins getað kíkt í tölvuna. Mig langaði að sjá hvort internetið lumaði á einhverjum fallegum uppskriftum líka. Ég fann nokkur á Pintrest og Ravelry.

Þetta fína kaðlamunstur má finna hér.

Þessi peysa sem er hneppt í hliðinni er sniðug á ungabörn sem elska ekki að láta tosa föt yfir hausinn á sér. Ég fann hana hér.

Þetta munstur gæti verið fallegt í einhverjum öðrum litum. Ég fann það hér.

Þessir krúttlegu andarungar myndu sóma sér vel neðst á lítilli peysu. Myndin fengin héðan

Annað kaðlamunstur. Fengið héðan.
Þessi peysa er líka svolítið krúttleg. Hana má finna hér.

Hvernig líst ykkur á? 

Nú vona ég bara að þessi krakki verði ekki eins og foreldrar sínir hvað ull varðar. Hvorugt okkar getur gengið í ullarfötum nema á höndum og fótum. Það má ekki einu sinni vera 5% ull í fötunum mínum, þá er mig farið að klæja.

22. febrúar 2015

Hraunsnef

Á leið okkar heim frá Snæfellsnesi í sumar, komum við við í sveitinni hjá Jóhanni frænda og Brynju konunni hans. Þau stunda búskap, veitinga- og hótelrekstur á bænum Hraunsnefi, í Borgarfirði rétt hjá Bifröst.
Hraunsnef sveitahótel

Ég fékk mér Hraunsnefsborgara ef mig misinnir ekki.

 Dýrin á bænum. Landnámshænur og lamb* með skitu.

Í torfæruferð með Jóhanni bónda.


 Við Karl-Kristian erum miklir dýravinir.


*Til gamans má geta að ég borðaði þetta lamb í matarboði hjá Jóhanni og Brynju um jólin. Það var mjög ljúffengt.

26. janúar 2015

Prjónað í sumarfríinu

Í sumar greip ég oft í prjónana og hér koma myndir af afrakstrinum.

Svona leit skrifborðið mitt út þegar ég var á Íslandi. Prjónar, garn, prjónabækur og prjónastykki út um allt.
Ég prjónaði þessa sokka og ætlaði að gefa henni Emmu Þórunni, nýjustu vinkonu minni, en þegar ég hitti hana, sá ég að þeir voru allt of litlir.
Uppskrift úr Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði Kambgarn í stað léttlopa til að fá ungbarnastærð.
Ég prjónaði þessa lopavettlinga til að gefa mastersverkefnisleiðbeinandanum mínum. Uppskriftin er úr Vettlingum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði þrefaldan plötulopa í stað tvöfalds til að fá karlmannsstærð.

Lopavettlingar úr þreföldum plötulopa. 
Þar sem að ég var að fara að byrja í skrifstofuvinnu, varð ég að eiga grifflur til að hlýja mínum vélritandi fingrum í vinnunni. Ég fann þessa fínu uglugriffluuppskrift á netinu og notaði Léttlopa í verkið.

Uglugrifflur.
Ég gerði aðra tilraun til að gera sokka handa Emmu Þórunni. Ég var búin að prjóna fyrri sokkinn og byrjaði á þeim seinni þegar við vorum í sumarbústað. Mér fannst hann vera svolítið stór hjá mér en ég var ekki með fyrri sokkinn með mér til að bera þá saman. Þegar ég kom heim og bar þá saman reyndist ég hafa farið smá línuvillt í uppskriftinni og prjónað seinni okkinn á 3 ára í stað 0,5 ára. Þá gafst ég upp og Emma Þórunn hefur enga sokka fengið.

Stakur sokkur. Uppskriftin að þessum er líka í Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur.

24. janúar 2015

Smá tafir vegna óviðráðanlegra aðstæðna

Eins og allir aðdáendur mínir hafa tekið eftir er búið að vera svolítið langt á milli færsla upp á síðkastið. Þannig vill til að mér hlotnaðist sá heiður að ganga með barn okkar Karls-Kristians og það tekur heldur betur á. Hér er mynd af fóstrinu sem breytist í barn um miðjan júní.
Fóstur

Ég hef aldrei skilið það hvað sumar vinkonur mínar hafa hlakkað til þess að vera óléttar (ekki að eignast barn, heldur sjálfrar meðgöngunnar) og ég skil það enn síður núna. Ég er eiginlega frekar heppin af því að þreyta og svimi er það eina sem hefur hrjáð mig en mér fannst það alveg nóg. Fyrstu þrjá mánuðina gerði ég nánast ekkert annað en að fara í vinnuna og kom svo heim og fór beint upp í rúm. Ég fór nánast að grenja þegar rúllustiginn á lestarstöðinni bilaði vegna vatnsskemmda og ég þurfti svona 10 mín til að ná andanum aftur eftir að hafa gengið upp tröppurnar (á hverjum degi á leiðinni í vinnuna). Hér koma nokkrar myndir sem sýna hversu yndislegt það er að bera barn undir belti (ég er samt ekki búin að ganga með belti eftir að barnið kom undir).

Þarna eyddi ég ófáum tímunum.
Ég að gera ekkert

Tvær myndir af mér þar sem ég er sennilega nýkomin heim úr vinnunni og tilbúin í hvað sem er.

Sem betur fer lagaðist þetta eftir fyrsta hluta meðgöngunnar. Allt í einu gat ég gengið á mínum venjulega gönguhraða og fyrstu viðbrögð mín við því að sjá tröppur hættu að vera bugun. Ég fann samt greinilega að líkaminn var ekki búin að fá neina hreyfingu í næstum því þrjá mánuði og er smátt og smátt að vinna upp betra þol. Ég keypti mér púlsmæli sem telur líka skref til að hvetja mig til þess að hreyfa mig og það svínvirkar. Ég er búin að labba í vinnuna flesta daga vikunnar og passa að sitja ekki of lengi í einu (grindin sko). Púlsmælirinn setur mér markmið fyrir því hversu mikið ég á að hreyfa mig á hverjum degi og segir mér í prósentum hvað ég er búin með mikið. Karl-Kristian horfði á mig furðulostinn eitt kvöldið þar sem ég stóð á stofugólfinu og steig trylltan dans án tónlistar rétt fyrir háttatíma ...ég átti 8% eftir.

Ég er ennþá ekki farin að finna nein spörk. Sennilega af því að það er auðveldast að finna þau þegar maður er lagstur upp í rúm (mig rámar í það að hafa lesið það en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það) en ég gleymi alltaf að reyna að finna þau þá (og bara alltaf). Kjáninn ég fer bara að sofa. Einu sinni fannst mér ég finna eitthvað en það gæti alveg eins hafa verið loft í leiðangri í gegn um görnina á mér.

Ég er með nokkrar hálftilbúnar færslur frá því í sumar og haust sem ég ætla að klára og birta á næstu dögum. Svo er ég að hugsa að afgreiða restina bara með smá annál fyrir 2014, þannig að þið getið fylgst spennt með.