22. febrúar 2015

Hraunsnef

Á leið okkar heim frá Snæfellsnesi í sumar, komum við við í sveitinni hjá Jóhanni frænda og Brynju konunni hans. Þau stunda búskap, veitinga- og hótelrekstur á bænum Hraunsnefi, í Borgarfirði rétt hjá Bifröst.
Hraunsnef sveitahótel

Ég fékk mér Hraunsnefsborgara ef mig misinnir ekki.

 Dýrin á bænum. Landnámshænur og lamb* með skitu.

Í torfæruferð með Jóhanni bónda.


 Við Karl-Kristian erum miklir dýravinir.


*Til gamans má geta að ég borðaði þetta lamb í matarboði hjá Jóhanni og Brynju um jólin. Það var mjög ljúffengt.

26. janúar 2015

Prjónað í sumarfríinu

Í sumar greip ég oft í prjónana og hér koma myndir af afrakstrinum.

Svona leit skrifborðið mitt út þegar ég var á Íslandi. Prjónar, garn, prjónabækur og prjónastykki út um allt.
Ég prjónaði þessa sokka og ætlaði að gefa henni Emmu Þórunni, nýjustu vinkonu minni, en þegar ég hitti hana, sá ég að þeir voru allt of litlir.
Uppskrift úr Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði Kambgarn í stað léttlopa til að fá ungbarnastærð.
Ég prjónaði þessa lopavettlinga til að gefa mastersverkefnisleiðbeinandanum mínum. Uppskriftin er úr Vettlingum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði þrefaldan plötulopa í stað tvöfalds til að fá karlmannsstærð.

Lopavettlingar úr þreföldum plötulopa. 
Þar sem að ég var að fara að byrja í skrifstofuvinnu, varð ég að eiga grifflur til að hlýja mínum vélritandi fingrum í vinnunni. Ég fann þessa fínu uglugriffluuppskrift á netinu og notaði Léttlopa í verkið.

Uglugrifflur.
Ég gerði aðra tilraun til að gera sokka handa Emmu Þórunni. Ég var búin að prjóna fyrri sokkinn og byrjaði á þeim seinni þegar við vorum í sumarbústað. Mér fannst hann vera svolítið stór hjá mér en ég var ekki með fyrri sokkinn með mér til að bera þá saman. Þegar ég kom heim og bar þá saman reyndist ég hafa farið smá línuvillt í uppskriftinni og prjónað seinni okkinn á 3 ára í stað 0,5 ára. Þá gafst ég upp og Emma Þórunn hefur enga sokka fengið.

Stakur sokkur. Uppskriftin að þessum er líka í Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur.

24. janúar 2015

Smá tafir vegna óviðráðanlegra aðstæðna

Eins og allir aðdáendur mínir hafa tekið eftir er búið að vera svolítið langt á milli færsla upp á síðkastið. Þannig vill til að mér hlotnaðist sá heiður að ganga með barn okkar Karls-Kristians og það tekur heldur betur á. Hér er mynd af fóstrinu sem breytist í barn um miðjan júní.
Fóstur

Ég hef aldrei skilið það hvað sumar vinkonur mínar hafa hlakkað til þess að vera óléttar (ekki að eignast barn, heldur sjálfrar meðgöngunnar) og ég skil það enn síður núna. Ég er eiginlega frekar heppin af því að þreyta og svimi er það eina sem hefur hrjáð mig en mér fannst það alveg nóg. Fyrstu þrjá mánuðina gerði ég nánast ekkert annað en að fara í vinnuna og kom svo heim og fór beint upp í rúm. Ég fór nánast að grenja þegar rúllustiginn á lestarstöðinni bilaði vegna vatnsskemmda og ég þurfti svona 10 mín til að ná andanum aftur eftir að hafa gengið upp tröppurnar (á hverjum degi á leiðinni í vinnuna). Hér koma nokkrar myndir sem sýna hversu yndislegt það er að bera barn undir belti (ég er samt ekki búin að ganga með belti eftir að barnið kom undir).

Þarna eyddi ég ófáum tímunum.
Ég að gera ekkert

Tvær myndir af mér þar sem ég er sennilega nýkomin heim úr vinnunni og tilbúin í hvað sem er.

Sem betur fer lagaðist þetta eftir fyrsta hluta meðgöngunnar. Allt í einu gat ég gengið á mínum venjulega gönguhraða og fyrstu viðbrögð mín við því að sjá tröppur hættu að vera bugun. Ég fann samt greinilega að líkaminn var ekki búin að fá neina hreyfingu í næstum því þrjá mánuði og er smátt og smátt að vinna upp betra þol. Ég keypti mér púlsmæli sem telur líka skref til að hvetja mig til þess að hreyfa mig og það svínvirkar. Ég er búin að labba í vinnuna flesta daga vikunnar og passa að sitja ekki of lengi í einu (grindin sko). Púlsmælirinn setur mér markmið fyrir því hversu mikið ég á að hreyfa mig á hverjum degi og segir mér í prósentum hvað ég er búin með mikið. Karl-Kristian horfði á mig furðulostinn eitt kvöldið þar sem ég stóð á stofugólfinu og steig trylltan dans án tónlistar rétt fyrir háttatíma ...ég átti 8% eftir.

Ég er ennþá ekki farin að finna nein spörk. Sennilega af því að það er auðveldast að finna þau þegar maður er lagstur upp í rúm (mig rámar í það að hafa lesið það en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það) en ég gleymi alltaf að reyna að finna þau þá (og bara alltaf). Kjáninn ég fer bara að sofa. Einu sinni fannst mér ég finna eitthvað en það gæti alveg eins hafa verið loft í leiðangri í gegn um görnina á mér.

Ég er með nokkrar hálftilbúnar færslur frá því í sumar og haust sem ég ætla að klára og birta á næstu dögum. Svo er ég að hugsa að afgreiða restina bara með smá annál fyrir 2014, þannig að þið getið fylgst spennt með.

2. október 2014

Kaffiboð og alls kyns innkaup

Ég er enn að venjast lífinu sem vinnandi kona. Vikurnar þeytast áfram og mér finnst ég rétt svo ná að elda og borða kvöldmat (beint eftir vinnu) áður en það er kominn háttatími. Við höfum samt náð að gera margt. Við höfum haldið matarboð, farið á ráðstefnu fyrir ungt fólk sem íhugar að kaupa sér íbúð, farið út að borða, hitt fólk á kaffihúsum, farið í sumarbústað, farið til Vestby að hitta fjölskylduna hans Karls-Kristians og búin að stússast ýmislegt til að kaupa hitt og þetta fyrir íbúðina.

Sunnudag nokkurn tókum við okkur til og buðum vinum okkar í sunnudagskaffi. Karl-Kristian bakaði bananabrauð og kanilsnúða á meðan ég fauk um íbúðina í hreingerningaræði (eitthvað sem er sjaldgæfara en hlaupár).

Bollarnir vekja alltaf lukku.
Þetta voru dýrindis veitingar hjá honum, Karlinum.
 Við erum enn að koma okkur fyrir í íbúðinni. Þegar maður er búinn að lifa á námslánum í 7 ár, á maður ekkert endilega mikið af fínum húsgögnum og heimilistækjum. Það var því ekki leiðinlegt að fá útborgað fyrir 1,5 mánuð (upphæð sem var ekki langt frá LÍN-útborguninni fyrir eina önn) og hér fyrir neðan má sjá í hvað peningarnir fóru.

Mjög ofarlega á óskalistanum var Moccamaster kaffivél. MMMM hvað hún lagar gott kaffi. Þið megið hlakka til að koma í heimsókn til okkar og fá besta uppáhellta kaffi veraldar úr glæsilegum bollum. Næst skruppum við til Vestby. Þar er mikið af heildsölum þar sem hægt er að fá merkjavörur á spottprís. Við fylltum þess vegna potta- og pönnuskápinn með hágæða pottum, pönnum og pizzusteini.

Við (ég?) féllum alveg fyrir þessu perluprjónsteppi með kögri. Refapúðann átti ég fyrir en mér finnst hann líka til mikillar prýði. Þegar ég var að skrifa ritgerðina varð ég vör við að ég var farin að sjá ver og ákvað að ég myndi fara í sjónpróf um leið og ég fengi mína fyrstu útborgun. Hér sjáið þið svo nýju gleraugun mín. Ég kemst ekki yfir það hvað það er hægt að sjá vel.

Ég læt þessa mynd fylgja með af sængurveri sem Karl-Kristian kom með í búið. Hann keypti það í IKEA á sínum tíma af því að þetta var ódýrasta sængurverið í boði (trúið þið því?). Hann varð svolítið hissa þegar hann sá að það fylgdu leiðbeiningar með því. Það er nefninlega hægt að búa til búning úr því með því að klippa sægngurverið og sauma saman. Röndin neðst er svo tilvalin sem belti. Það er líka mjög skemmtilegt að sjá hann með sængina breidda yfir sig.

19. september 2014

Landkönnuðirnir - annar hluti - Vesturland

Í júlí buðu mamma og pabbi okkur með sér í ferð um Vesturlandið. Við gistum tvær nætur í sumarbústað sem vinnufélagi pabba lánaði honum. Á leiðinni í bústaðinn komum við við í Rauðfellsgjá. Það kom því miður mikið af fólki á sama tíma og við þannig að við þurftum að ganga í röð inn í gjánni. En það gekk enginn á móti okkur, hvorki á leiðinni að né frá gjánni, þannig að þetta hefur bara hittst svo illa á.



Í Rauðfeldsgjá.

Bústaðurinn var við Arnarstapa. Við fengum okkur göngutúr að hleðslulistaverkinu af Bárði og hættum lífi okkar þegar við gengum í gegn um Kríuvarp.

Hér erum við Karl-Kristian í klofinu á Bárði.

Karl-Kristian með Arnarstapa í bakgrunn og pabbi við fuglabjarg.

Á miðvikudeginum tókum við stóran hring og fyrsta stopp var Dritvík. Við gengum niður að Djúpalónssandi og tíndum Djúpalónsperlur.





Ég tíndi blóm handa Karli-Kristiani í bakaleiðinni (nektarínuna fékk hann hjá mömmu).

Við komum við í Ólafsvík og skoðuðum gamla muni á safni þar. Við keyrðum svo áfram til Stykkishólms. Á leiðinni komum við í einhvers konar sjávarsafni. Þar voru uppstoppaðir sjávarfuglar til sýnis ásamt pétursskipi, hákarlatönnum, steinum og fleiru. Þar var líka hægt að smakka hákarl.



Meðal sýningargripanna á safninu í Ólafsvík voru þessir fallegu kaffibollar og munstraðar prjónapeysur. Neðst til hægri má svo sjá hákarlatennur af öðru safni.

Áður en við lögðum af stað heim á leið fengum ég, mamma og Karl-Kristian okkur göngutúr á meðan pabbi ryksugaði og gekk frá í bústaðnum.

Göngutúr í morgunsárið. Á myndunum fyrir neðan sjáið þið hvað klettarnir voru fallegir við sjóinn.


Karl-Kristian henti steinum í sjóinn. Simple mind - simple pleasure.


Við fórum inn í hellisskútann á myndunum fyrir ofan steinkastarann mikla og klifruðum upp í gegn um gat.

Falleg leið í fríðu föruneyti.

Ungt par horfir yfir hafið.


Á leiðinni heim ætluðum við aðeins að kíkja á jökulinn, en hann var búin að minnka svo mikið að við gáfumst upp á því að leita að honum í þokunni. Við létum okkur nægja að kíkja aðeins inn í Sönghelli í staðinn.


Við komum aðeins við í Sönghelli og tókum saman lagið.