2. október 2014

Kaffiboð og alls kyns innkaup

Ég er enn að venjast lífinu sem vinnandi kona. Vikurnar þeytast áfram og mér finnst ég rétt svo ná að elda og borða kvöldmat (beint eftir vinnu) áður en það er kominn háttatími. Við höfum samt náð að gera margt. Við höfum haldið matarboð, farið á ráðstefnu fyrir ungt fólk sem íhugar að kaupa sér íbúð, farið út að borða, hitt fólk á kaffihúsum, farið í sumarbústað, farið til Vestby að hitta fjölskylduna hans Karls-Kristians og búin að stússast ýmislegt til að kaupa hitt og þetta fyrir íbúðina.

Sunnudag nokkurn tókum við okkur til og buðum vinum okkar í sunnudagskaffi. Karl-Kristian bakaði bananabrauð og kanilsnúða á meðan ég fauk um íbúðina í hreingerningaræði (eitthvað sem er sjaldgæfara en hlaupár).

Bollarnir vekja alltaf lukku.
Þetta voru dýrindis veitingar hjá honum, Karlinum.
 Við erum enn að koma okkur fyrir í íbúðinni. Þegar maður er búinn að lifa á námslánum í 7 ár, á maður ekkert endilega mikið af fínum húsgögnum og heimilistækjum. Það var því ekki leiðinlegt að fá útborgað fyrir 1,5 mánuð (upphæð sem var ekki langt frá LÍN-útborguninni fyrir eina önn) og hér fyrir neðan má sjá í hvað peningarnir fóru.

Mjög ofarlega á óskalistanum var Moccamaster kaffivél. MMMM hvað hún lagar gott kaffi. Þið megið hlakka til að koma í heimsókn til okkar og fá besta uppáhellta kaffi veraldar úr glæsilegum bollum. Næst skruppum við til Vestby. Þar er mikið af heildsölum þar sem hægt er að fá merkjavörur á spottprís. Við fylltum þess vegna potta- og pönnuskápinn með hágæða pottum, pönnum og pizzusteini.

Við (ég?) féllum alveg fyrir þessu perluprjónsteppi með kögri. Refapúðann átti ég fyrir en mér finnst hann líka til mikillar prýði. Þegar ég var að skrifa ritgerðina varð ég vör við að ég var farin að sjá ver og ákvað að ég myndi fara í sjónpróf um leið og ég fengi mína fyrstu útborgun. Hér sjáið þið svo nýju gleraugun mín. Ég kemst ekki yfir það hvað það er hægt að sjá vel.

Ég læt þessa mynd fylgja með af sængurveri sem Karl-Kristian kom með í búið. Hann keypti það í IKEA á sínum tíma af því að þetta var ódýrasta sængurverið í boði (trúið þið því?). Hann varð svolítið hissa þegar hann sá að það fylgdu leiðbeiningar með því. Það er nefninlega hægt að búa til búning úr því með því að klippa sægngurverið og sauma saman. Röndin neðst er svo tilvalin sem belti. Það er líka mjög skemmtilegt að sjá hann með sængina breidda yfir sig.

1 ummæli:

  1. Ég hlakka til að koma í heimsókn til ykkar einn daginn :) Ekki útaf kaffinu samt. Ég vona líka að þá verði KK búinn að breyta sængurverinu í búning :)

    SvaraEyða