11. ágúst 2014

Sumarfrí á Íslandi

Þá er ég komin aftur til Vestby. Við Karl-Kristian fengum íbúðina sem ég talaði um hér og flytjum inn síðustu helgina í ágúst. Ég get varla beðið ég hlakka svo til. Karl-Kristian byrjaði að vinna fyrir viku síðan og ég byrja í næstu viku. Ég hlakka líka rosalega til þess að byrja að vinna.

Ég var að skoða myndir frá Íslandsförinni og fannst tilvalið að skella í eina færslu með myndum úr ferðinni.

Mamma var dugleg að sækja Ragnheði Kristínu og fá hana í láni. Röggu fannst ekkert leiðinlegt að hafa mig og Karl-Kristian þarna líka og vildi ólm fá okkur með sér í sólstofuna og sitja þar (í svona 3 mín, þá var hún farin eitthvert annað).


Karl-Kristian og Ragga urðu perluvinir.

 Okkur Röggu kom líka vel saman

Eldrún, vinkona Röggu, kom líka í heimsókn og fékk að fara með í göngutúr (sem er fastur liður hjá mömmu og Röggu). Ragga vildi helst vera með þessa beljuhúfu en mamma náði að sannfæra hana um að vera með lambhúshettu í staðinn. Til hægri má líka sjá dúkkuna mína, Gunnar.

Það var allt morandi í hrossaflugum við húsið hjá mömmu og pabba. Eitt kvöldið voru fjórar hrossaflugur að sveima um herbergið þegar ég var að fara að sofa. Þegar ég vaknaði blasti þessi sýn við mér.
 Höfuðið á mér hafði hvílt neðst á hægra horni koddans.
Ég, Eva, Eyrún og Ýr gerðum okkur glaðan dag og fórum á Saffran í hádeginu. Emma Þórunn og Jónína Hugborg, dætur Evu og Eyrúnar fengu líka að slást með í för og horfa á okkur borða. Eftir máltíðina ákvað Eva svo að bjóða okkur heim til sín í vidjó og snarl. Þið hefðuð átt að sjá okkur allar 6 liggjandi í svefnsófanum hennar Evu, með sæng, að horfa á dansmynd. Myndin var ekki góð en það kom ekki að sök þegar allt annað var svona frábært.

Eva klikkar ekki á veitingunum. Hún útbjó guacamole, ostadipp, kaffi og
hráfæðisgóðgæti. Þetta var allt mjög gott hjá henni og fallega borið fram.

Veitingarnar ofan frá. Neðst á myndinni má svo sjá sokkinn hennar Ýrar, sem Ævar bróðir hennar gaf henni.

Ég var dugleg að taka upp prjónana og hér fyrir neðan er mynd sem ég tók þegar Sonja bauð mér í kaffi. Við sátum allt síðdegið úti á palli í sólinni og prjónuðum. Ég hefði auðvitað átt að taka mynd af Sonju líka, en þessi mynd er af lopavettlingunum sem ég var að prjóna.

Uppskriftin er úr Vettlingum og fleiru eftir mömmu (Kristínu Harðardóttur). 
Svona leit skrifborðið mitt út. Það mætti halda að einhver prjónabúð hafi ælt yfir það.
Síðasta daginn minn á landinu kíkti ég til ömmu Mæju. Hún bauð mér upp á kaffi og kökur og sýndi mér alls kyns prjónadót: vettlinga og sokka sem hún er búin að prjóna, ásamt uppskriftunum og garni sem hún notar. Hún spáði líka fyrir mér í bolla.

Kaffi og með'í.

2 ummæli:

  1. Skemmtileg færsla :) Mikið hljómar vinkonudagurinn vel! Var eitthvað spennandi í bollanum hjá þér? :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ég man það ekki alveg. Það var mjög bjart yfir honum og svo voru einhverjir peningar eftir svolítinn tíma.

      Eyða