29. apríl 2014

Páskar

Ég ákvað að skella í eina páskamyndafærslu. Ég og Karl-Kristian vorum að mestu leyti uppi í skóla en við tókum okkur frí á laugardeginum. Karl-Kristian fór svo heim til mömmu sinnar á páskadag.

Akrýlgarn og súkkulaðiegg.

Mamma og pabbi voru svo góð að senda okkur páskaegg og garn í húfu.

Það leyndist ýmislegt góðgæti inni í páskaeggjunum.

Úr því að Karl-Kristian var að fara snemma á páskadag tókum við forskot á sæluna og opnuðum páskaeggin á skírdag. Ég sá samt pínu eftir því á sunnudeginum þegar ég átti næstum því ekkert eftir.

Það sem þetta bleika strik hefur skemmt mér. 

Ég ákvað að stríða Karli-Kristiani aðeins þegar við vorum að læra og teiknaði strik á kinnina á honum með bleikum yfirstrikunarpenna. Daginn eftir spurði ég svo hvort hann ætlaði ekkert að þvo það af sér og hann svarar "Hvaða strik?". Ég benti honum á það í speglinum og þá kom í ljós að hinn litblindi Karl-Kristian sá strikið hreinlega ekki. Ég mæli hiklaust með því að fá sér litblindan kærasta. Það er ógeðslega fyndið.

Páskapizza

Aðfangadag páska (jebb, í Noregi er laugardagurinn kallaður það) gerðum við þessa ljúffengu páskapizzu með grófum botni, pulsum, fetaosti, og ýmsu öðru góðgæti.


Vettlingar og húfa með áttablaðarósum. Vettlingarnir eru úr kambgarni en húfan er úr akrýlgarninu sem mamma sendi mér.

Ég kláraði áttablaðarósarvettlingana úr Vettlingabókinni eftir mömmu og hófst handa við að gera húfu með munstrinu sem ég minntist á hér. Ég er mjög ánægð með hana en ég á bara eftir að búa til dúsk áður en hún er tilbúin. Ég mæli með þessu akrýlgarni sem heitir Julia (Steinbach Wolle) og fæst í Ömmu mús. Það er ekki glansandi og gervilegt eins og akrýlgarn á það til að vera og það er tilvalið fyrir fólk eins og mig sem klæjar mikið undan ull.

Í gær kom Karl-Kristian svo heim eftir að hafa skroppið með félögum sínum í helgarferð til Manchester. Mikið óskaplega var gott að fá hann heim! Við fórum út að borða til að fagna því að í gær var eitt ár frá því við byrjuðum saman.

1 ummæli:

  1. Ég hló upphátt yfir litblindugríninu, hahah :) KK verður bara betri og betri!
    Og mjög fín handavinnan þín, ég vildi smá að ég nennti að læra að gera svona..

    SvaraEyða