7. mars 2015

Utanlandsferð

Í byrjun september bauð Kristoffer okkur með sér til Svíþjóðar í sumarbústað foreldra sinna. Þetta var um það bil tveggja tíma akstur frá Osló, minnir mig.  Kristoffer, Gudrun og Bernt lögðu fyrst af stað og sáu um að fara í Systembolaget (ríkið í Svíþjóð) og í matvörubúð að kaupa í kvöldmatinn. Ég og Karl-Kristian fengum far hjá Ingrid og Halle og við sáum um innkaup fyrir það sem eftir var ferðar. Við gleymdum okkur aðeins í nammibarnum og keyptum óvart eina fötu á mann. Úps.

Þegar við fórum að nálgast bústaðinn kom Kristoffer keyrandi á móti okkur á sláttuvélinni sinni og við fengum sláttuvélarfylgd alla leið að bústaðnum. Þegar inn var komið átti bara eftir að leggja á borð og svo báru þau sem á undan komu fram dýrindistakómáltíð.

Kristoffer keyrir á undan okkur á sláttuvélinni. Mér sýnist hraðamælirinn benda á 10 km/klst sem er fínn hraði.

Kvöldið fór svo í spjall, trampólín og spurningaspil. Við Ingrid vorum mjög gott spurningaspilalið. Ég kunni svörin við öllum (báðum) sjúkdómaspurningunum og Ingrid kunni allt annað (spurning um hvort Ingrid hafi verið jafnánægð með liðsfélagan og ég).

Strákarnir hita upp fyrir spurningaleik. Fremst á myndinni má sjá nokkrar sælgætisfötur. Ég vildi að ég gæti sagt að við hefðum ekki klárað úr þeim.

Halle var quizmaster í upphituninni.

Við stelpurnar vorum í miklu stuði 

Á laugardeginum vöknuðum við við dásamlegan ilm. Bernt var fyrstur á fætur og hófst strax við handa að steikja egg og beikon ofan í liðið. Þvílíkur öðlingur. Eftir morgunmatinn skelltum við okkur út að slá grasið, við fórum í krokket, fengum okkur pylsur í hádegismat, átum nammi, elduðum lasanja og höfðum það notalegt.

Bernt við morgunverðarmatseldina til vinstri og til hægri undirbýr Gudrun sig andlega fyrir krokket á meðan hún fylgist með grasslætti.

Kristoffer tók þessa fínu mynd af okkur Ingrid að slá gras. Hann var svo yndæll að leyfa mér að deila henni með ykkur.

Ég mátti til með að taka mynd af þessum fínu bollum sem héngu svona fallega í eldhúsinu.
Þetta var mjög góð ferð og ég vona að Kristoffer bjóði okkur aftur með sér þangað. Það vill reyndar svo skemmtilega til að fjölskyldan hans Bernts á líka sumarbústað og við erum að fara þangað þarnæstu helgi. Það verður fjör.

1 ummæli:

  1. En huggulegt, alltaf gaman að fara í bústað :) Ég verð þó að lýsa yfir vonbrigðum mínum með svokallaðar "fötur"- ég átti von á alvöru fötum eins og til dæmis þeim sem maður fær á KFC.

    SvaraEyða