26. janúar 2015

Prjónað í sumarfríinu

Í sumar greip ég oft í prjónana og hér koma myndir af afrakstrinum.

Svona leit skrifborðið mitt út þegar ég var á Íslandi. Prjónar, garn, prjónabækur og prjónastykki út um allt.
Ég prjónaði þessa sokka og ætlaði að gefa henni Emmu Þórunni, nýjustu vinkonu minni, en þegar ég hitti hana, sá ég að þeir voru allt of litlir.
Uppskrift úr Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði Kambgarn í stað léttlopa til að fá ungbarnastærð.
Ég prjónaði þessa lopavettlinga til að gefa mastersverkefnisleiðbeinandanum mínum. Uppskriftin er úr Vettlingum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur. Ég notaði þrefaldan plötulopa í stað tvöfalds til að fá karlmannsstærð.

Lopavettlingar úr þreföldum plötulopa. 
Þar sem að ég var að fara að byrja í skrifstofuvinnu, varð ég að eiga grifflur til að hlýja mínum vélritandi fingrum í vinnunni. Ég fann þessa fínu uglugriffluuppskrift á netinu og notaði Léttlopa í verkið.

Uglugrifflur.
Ég gerði aðra tilraun til að gera sokka handa Emmu Þórunni. Ég var búin að prjóna fyrri sokkinn og byrjaði á þeim seinni þegar við vorum í sumarbústað. Mér fannst hann vera svolítið stór hjá mér en ég var ekki með fyrri sokkinn með mér til að bera þá saman. Þegar ég kom heim og bar þá saman reyndist ég hafa farið smá línuvillt í uppskriftinni og prjónað seinni okkinn á 3 ára í stað 0,5 ára. Þá gafst ég upp og Emma Þórunn hefur enga sokka fengið.

Stakur sokkur. Uppskriftin að þessum er líka í Sokkum og fleiru eftir Kristínu Harðardóttur.

2 ummæli:

  1. Mér finnst magnað að þú getir bara búið til allskonar svona fínerí. Vildi að ég hefði nennuna í svona :) Annars finnst mér líka mjög athyglisvert að þú þurfir grifflur í vinnunni, er ekki kynding þarna?

    SvaraEyða
    Svör
    1. Jú, en þessi bölvaða loftræsting er aldrei til friðs. Það er oft aðeins of kalt (strákunum sem ég vinn með finnst samt bara vera notalegt) og þegar sólin skín, verður oft allt of heitt. Það er bara eitt ráð við þessu - layers.

      Eyða