15. september 2014

Gulróta- og engifersúpa

Ég er búin að vera eitthvað lasin frá því á laugardaginn. Þegar ég er veik langar mig oft í súpu og í dag fann ég einmitt fyrir slíkri löngun. Ég tók mig þess vegna til og bjó til gulróta- og engifersúpu sem heppnaðist bara mjög vel, þó ég segi sjálf frá. 


Mamma hefur tvisvar sinnum gert svona súpu þegar ég hef verið heima en hún styðst bara lauslega við uppskrift og bætir í því sem henni dettur í hug. Ég studdist við þessa og þessa uppskrift og fór þannig að: 

Kókosolía (eða bara það sem þú notar til steikingar)
1 rauðlaukur
3 cm engifer
3 hvítlauksgeirar
5 gulrætur
1 chilli
1 grænmetisteningur
(kjúklingur)
1 dós kókosmjólk
1/2 sítróna (safinn)
Salt, karrý, pipar og smá paprikukrydd. 

Ég nennti ekki að vaska upp pönnu, þannig að ég byrjaði á því að hita smá olíu í potti og grófsaxaði lauk, engifer og hvítlauk og henti upp í pottinn jafnóðum. Ég steikti þetta á meðalhita þangað til laukurinn var orðinn glær. Á meðan hitaði ég 1,5 líter af vatni í hraðsuðukatli og skar hverja gulrót í u.þ.b. 5 bita og bætti vatninu og gulrótunum í pottinn þegar laukurinn var orðinn glær. 

Næst bætti ég við grænmetisteningi og grófsöxuðu chillíi (ég fjarlægði fyrst færin til að þetta yrði ekki of sterkt) og lét sjóða í 10-20 mínútur (þangað til gulræturnar voru sæmilega soðnar). Ég skellti þessu svo í mixarann (á ekki töfrasprota), mixaði í smá stund og hellti aftur í pottinn. 

Ég ætlaði að hafa kjúkling út í en ég gleymdi að kaupa hann. En ég hefði bætt honum við hér. Skorið hann niður í litla bita og soðið í gegn. Ef maður passar að bitarnir séu ekki stærri en 2 cm ættu 3 mínútur að vera nóg en til öryggis sker ég alltaf einn af stærstu bitunum og athuga.

Að lokum hellti ég kókosmjólkinni út í, kreisti sítrónuna og smakkaði til með kryddi. Ef ég ætti að giska, notaði ég u.þ.b. 1 tsk af salti, 1 tsk af karrý, 1/4-1/2 tsk pipar og bara smá paprikukrydd (má sennilega sleppa).

Þessi súpa er alveg passlega sterk en manni verður mjög heitt af henni svo ég mæli með léttum klæðnaði við neyslu hennar. Verði ykkur að góðu!

1 ummæli:

  1. Hljómar vel þessi súpa :) Vonandi ferðu að hressast :)

    SvaraEyða