19. september 2014

Landkönnuðirnir - annar hluti - Vesturland

Í júlí buðu mamma og pabbi okkur með sér í ferð um Vesturlandið. Við gistum tvær nætur í sumarbústað sem vinnufélagi pabba lánaði honum. Á leiðinni í bústaðinn komum við við í Rauðfellsgjá. Það kom því miður mikið af fólki á sama tíma og við þannig að við þurftum að ganga í röð inn í gjánni. En það gekk enginn á móti okkur, hvorki á leiðinni að né frá gjánni, þannig að þetta hefur bara hittst svo illa á.



Í Rauðfeldsgjá.

Bústaðurinn var við Arnarstapa. Við fengum okkur göngutúr að hleðslulistaverkinu af Bárði og hættum lífi okkar þegar við gengum í gegn um Kríuvarp.

Hér erum við Karl-Kristian í klofinu á Bárði.

Karl-Kristian með Arnarstapa í bakgrunn og pabbi við fuglabjarg.

Á miðvikudeginum tókum við stóran hring og fyrsta stopp var Dritvík. Við gengum niður að Djúpalónssandi og tíndum Djúpalónsperlur.





Ég tíndi blóm handa Karli-Kristiani í bakaleiðinni (nektarínuna fékk hann hjá mömmu).

Við komum við í Ólafsvík og skoðuðum gamla muni á safni þar. Við keyrðum svo áfram til Stykkishólms. Á leiðinni komum við í einhvers konar sjávarsafni. Þar voru uppstoppaðir sjávarfuglar til sýnis ásamt pétursskipi, hákarlatönnum, steinum og fleiru. Þar var líka hægt að smakka hákarl.



Meðal sýningargripanna á safninu í Ólafsvík voru þessir fallegu kaffibollar og munstraðar prjónapeysur. Neðst til hægri má svo sjá hákarlatennur af öðru safni.

Áður en við lögðum af stað heim á leið fengum ég, mamma og Karl-Kristian okkur göngutúr á meðan pabbi ryksugaði og gekk frá í bústaðnum.

Göngutúr í morgunsárið. Á myndunum fyrir neðan sjáið þið hvað klettarnir voru fallegir við sjóinn.


Karl-Kristian henti steinum í sjóinn. Simple mind - simple pleasure.


Við fórum inn í hellisskútann á myndunum fyrir ofan steinkastarann mikla og klifruðum upp í gegn um gat.

Falleg leið í fríðu föruneyti.

Ungt par horfir yfir hafið.


Á leiðinni heim ætluðum við aðeins að kíkja á jökulinn, en hann var búin að minnka svo mikið að við gáfumst upp á því að leita að honum í þokunni. Við létum okkur nægja að kíkja aðeins inn í Sönghelli í staðinn.


Við komum aðeins við í Sönghelli og tókum saman lagið.


15. september 2014

Gulróta- og engifersúpa

Ég er búin að vera eitthvað lasin frá því á laugardaginn. Þegar ég er veik langar mig oft í súpu og í dag fann ég einmitt fyrir slíkri löngun. Ég tók mig þess vegna til og bjó til gulróta- og engifersúpu sem heppnaðist bara mjög vel, þó ég segi sjálf frá. 


Mamma hefur tvisvar sinnum gert svona súpu þegar ég hef verið heima en hún styðst bara lauslega við uppskrift og bætir í því sem henni dettur í hug. Ég studdist við þessa og þessa uppskrift og fór þannig að: 

Kókosolía (eða bara það sem þú notar til steikingar)
1 rauðlaukur
3 cm engifer
3 hvítlauksgeirar
5 gulrætur
1 chilli
1 grænmetisteningur
(kjúklingur)
1 dós kókosmjólk
1/2 sítróna (safinn)
Salt, karrý, pipar og smá paprikukrydd. 

Ég nennti ekki að vaska upp pönnu, þannig að ég byrjaði á því að hita smá olíu í potti og grófsaxaði lauk, engifer og hvítlauk og henti upp í pottinn jafnóðum. Ég steikti þetta á meðalhita þangað til laukurinn var orðinn glær. Á meðan hitaði ég 1,5 líter af vatni í hraðsuðukatli og skar hverja gulrót í u.þ.b. 5 bita og bætti vatninu og gulrótunum í pottinn þegar laukurinn var orðinn glær. 

Næst bætti ég við grænmetisteningi og grófsöxuðu chillíi (ég fjarlægði fyrst færin til að þetta yrði ekki of sterkt) og lét sjóða í 10-20 mínútur (þangað til gulræturnar voru sæmilega soðnar). Ég skellti þessu svo í mixarann (á ekki töfrasprota), mixaði í smá stund og hellti aftur í pottinn. 

Ég ætlaði að hafa kjúkling út í en ég gleymdi að kaupa hann. En ég hefði bætt honum við hér. Skorið hann niður í litla bita og soðið í gegn. Ef maður passar að bitarnir séu ekki stærri en 2 cm ættu 3 mínútur að vera nóg en til öryggis sker ég alltaf einn af stærstu bitunum og athuga.

Að lokum hellti ég kókosmjólkinni út í, kreisti sítrónuna og smakkaði til með kryddi. Ef ég ætti að giska, notaði ég u.þ.b. 1 tsk af salti, 1 tsk af karrý, 1/4-1/2 tsk pipar og bara smá paprikukrydd (má sennilega sleppa).

Þessi súpa er alveg passlega sterk en manni verður mjög heitt af henni svo ég mæli með léttum klæðnaði við neyslu hennar. Verði ykkur að góðu!

14. september 2014

Flutt til Oslóar

Nú erum við loksins flutt til Oslóar. Við fluttum inn 1. september og erum að klára að koma okkur fyrir. Íbúðin er í mjög rólegu og fallegu hverfi og við búum rétt hjá litlum bóndaleikskóla þar sem börn geta komið og hitt dýr og séð hvernig maður sáir fræjum og ræktar grænmeti og fleira. Meðal dýranna á bóndaleikskólanum er asni sem við heyrum í af og til, okkur til mikillar skemmtunnar. Hér fyrir neðan er mynd af leikskólanum. Íbúðin okkar er í blokkinni hægra megin fyrir aftan leikskólann.
Bóndaleikskólinn með blokkina okkar í bakgrunni.
Myndin er fengin að láni hjá http://kampenhistorielag.no/
Það er neðanjarðarlestarstöð rétt hjá okkur. Það tekur bara eina mínútu að labba þangað og við þurfum í mesta lagi að bíða í 3 mínútur eftir lest sem fer niður í bæ. Það er líka stutt að labba niður í miðbæ. Ég held að það taki u.þ.b. 20 mínútur, þannig að þetta er fullkomin staðsetning.

Það er búið að vera mikið að gera í vinnunni og flutningum en nú erum við loks komin með internet, þannig að ég ætla að reyna að vera duglegri að blogga. Ég er ennþá með nokkrar sumarfrísfærslur í vinnslu og svo á ég eftir að segja ykkur meira frá nýju vinnunni og sýna ykkur myndir úr íbúðinni. En á meðan getið þið notið þessarar myndar sem ég tóki af Karli-Kristiani í sunnudagskaffinu fyrir viku síðan.

Karl-Kristian að fá sér kaffi og með því. Mér finnst hann nú frekar sætur.